140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

fundarstjórn.

[16:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika það að þegar gert var samkomulag um málsmeðferðina varðandi fjáraukalagafrumvarpið fól hún tvennt í sér. Annars vegar að fjáraukalagafrumvarpið yrði afgreitt úr fjárlaganefnd í morgun og að 2. umr. um fjáraukalögin gæti farið fram á morgun sem er ekki í samræmi við starfsáætlun en menn voru sammála um það engu að síður.

Ný sýnist mér að önnur forsendan sé úti, þ.e. samkomulagið um að málið hafi hlotið afgreiðslu núna í morgunsárið. Ég velti þá auðvitað fyrir mér hvort hinn þáttur málsins muni þá ganga eftir, hvort hægt sé að láta fara fram umræðu um sjálf fjáraukalögin þegar engin þingskjöl hafa legið hér fyrir. Við höfum ekki séð þær breytingartillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar kann að gera. Undirbúningur okkar þingmanna að slíku máli verður þess vegna í skötulíki. Ég vil t.d. vekja athygli á því að þingnefndarfundir verða í fyrramálið, þannig að tóm til að undirbúa sig undir umræðuna er ekkert.

Þetta er auðvitað ekki gott en lýsir fyrst og fremst einu; vandræðagangi og því sem allir vita (Forseti hringir.) megnum átökum innan stjórnarflokkanna og milli stjórnarflokkanna um einstaka þætti (Forseti hringir.) fjáraukalagafrumvarpsins eins og mun væntanlega koma á daginn.