140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

ESB-umsókn og ástandið í Suður-Evrópu.

[10:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er mikið um að vera í Evrópusambandinu þessa dagana og ekki hvað síst akkúrat núna því að Ítalía hefur bæst í hóp þeirra ríkja sem lítur út fyrir að geta ekki staðið undir skuldbindingum sínum hjálparlaust. Fyrst var því haldið fram að eingöngu Grikkland gæti þurft aðstoð, svo bættist Írland við, svo var þrætt fyrir að Portúgal mundi fylgja í kjölfarið en að sjálfsögðu leið ekki á löngu áður en það varð og nú má sjá fyrirsagnir um að Spánn og jafnvel Frakkland séu hugsanlega næst í röðinni.

Viðbrögðin við þessu ástandi eru meðal annars þau að menn ræða nú, m.a. þýskir embættismenn eins og Reuters-fréttastofan upplýsir um í dag, uppskiptingu evrusvæðisins. Baroso lýsti því yfir í dag eða í gærkvöldi að slíkt sé mjög raunverulegur möguleiki vegna þess að þarna sé um að ræða tvenns konar Evrópusamband, ólíkt samband mismunandi ríkja, og þetta bætist auðvitað við fullkomna óvissu um hvers lags fyrirbæri Evrópusambandið verður, hvort það verði eitt eða hvort þessi tveggja ríkja lausn verði ofan á og þá með hvaða hætti það verði gert.

Það þarf ekki að rekja stöðu sjávarútvegs- og landbúnaðarmála innan Evrópusambandsins. Þau mál eru öll í endurskoðun og ljóst að sú endurskoðun mun líklega ekki klárast fyrr en á árinu 2013 og þar af leiðandi ekki hægt að semja við Íslendinga um þá málaflokka í millitíðinni. Er ekki ljóst að Íslendingar hafa í rauninni engu að tapa og að eina vitið í þessari stöðu sé að bíða með áframhald viðræðna, setja það í einhvers konar biðstöðu á meðan Evrópusambandið kemst að raun um hvers konar samband það ætlar að vera, á meðan menn finna út úr því hvernig sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnan verður og hvort Evrópusambandið og evrusamstarfið verði yfirleitt til staðar?