140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

ESB-umsókn og ástandið í Suður-Evrópu.

[10:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil snúa þessu við sem hv. þingmaður sagði og segja: Hafa Íslendingar einhverju að tapa með því að halda áfram þessum samningum? Við erum komin vel áleiðis, ætli við séum ekki búin með tvo þriðju af því ferli sem við upphaflega skilgreindum. Ferlið hefur verið ódýrara en við töldum í upphafi. Við erum núna komin í beina samninga. Það hefur alltaf legið fyrir að Evrópusambandið er síkvikt, dínamískt og það breytist, stundum dag frá degi eins og hv. þm. Þór Saari sagði á sínum tíma.

Ég tel að það sé fyllilega ótímabært að slá einhverju föstu um það hvernig sú þróun sem nú er í gangi í Evrópu endar. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, eins og við höfum áður rætt um, að í suðurhluta Evrópu voru óuppgerðar fjármálalegar sakir millum og innan ríkja og það er alveg ljóst að evran er í uppnámi og á í miklum erfiðleikum núna. Ég held hins vegar að þegar upp verður staðið komi hún sterkari út, hugsanlega með öðruvísi þverbitum, hugsanlega með öðruvísi umbúnaði. Menn læra af reynslunni.

Fyrir okkur Íslendinga sem þurfum að taka afstöðu til aðildarsamnings að lokum í þjóðaratkvæðagreiðslu er það gott að þetta skeið er frá. Við vissum að evran mundi sigla í gegnum brimskafla og þá mun evran (Gripið fram í.) liggja miklu skýrar fyrir sem valkostur. [Kliður í þingsal.] Menn geta þá tekið afstöðu til þess hvort þeir vilja halda áfram með krónuna í gjaldeyrishöftum sem ólíklegt er að við getum nokkru sinni losað okkur (Gripið fram í.) við eða evruna með lægri vöxtum, með afnámi verðtryggingar, með afnámi gjaldeyrishafta, með erlendum fjárfestingum sem vonandi vinna bug á atvinnuleysinu. Þetta eru valkostir og það er fyllilega ótímabært að slá einhverju föstu um að sá valkostur verði ekki sá sem íslenska þjóðin að lokum velur. [Frammíköll í þingsal.]