140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

innleiðing á stefnu NATO.

[10:44]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til ráðherrans en vil fyrst hafa smáaðdraganda að henni.

Á NATO-þinginu, sem haldið var fyrir tæpum mánuði í Rúmeníu, varð ég vitni að undarlegum vinnubrögðum við samþykkt á ályktun um netárásir og -öryggi í nefnd sem ég á sæti í. Í ályktuninni var lagt til að við sem eigum sæti í nefndinni þrýstum á stjórnvöld og þingheim í heimalöndum okkar að gera nýja stefnu NATO um netöryggi og -árásir að okkar án þess þó að hafa aðgengi að þessari stefnu, en enginn þingmaður á NATO-þinginu hefur heimild til að sjá stefnuna. Það finnst mér ólíðandi vinnubrögð og gagnrýndi það með því að leggja til að þessi grein ályktunarinnar yrði fjarlægð.

Því miður fékk ég aðeins stuðning þriggja þingmanna frá þremur öðrum þjóðlöndum við þessa tilraun til meira gagnsæis svo NATO-þingið sé lýðræðislegur vettvangur en ekki aðeins skraut til stuðnings leynistefnu NATO í þessum málum sem öðrum.

Mig langar því að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvernig framkvæmd innleiðingar á stefnu NATO fer fram hérlendis. Fékk þingið þessa stefnu um netárásir og viðbrögð við þeim til umfjöllunar? Hvernig hefur þessum málum verið háttað þegar NATO-stefnur eru innleiddar? Eru þær innleiddar án þess að þingið hafi nokkuð um það að segja? Hafa NATO-innleiðingar eða „pólisíur“ farið fyrir þingið á þann veg að ráðherra leggi fram frumvarp þess efnis sem kæmi til kasta ákvæða þingsins? Hvernig er þessum málum háttað hjá öðrum NATO-ríkjum?

Ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á því að samkvæmt þessari stefnu hefur NATO dregið línu í sandinn um hvenær netárás jafngildir hernaðarlegri árás og réttlætir þar af leiðandi stríðsátök við landið þar sem talið er að árásin eigi upptök sín. Ég vil jafnframt vekja athygli ráðherrans á því að auðvelt er að láta það líta svo út að annað land standi fyrir slíkri árás. Þetta er hættuleg þróun og hættuleg stefna sem mér finnst ótrúlegt að hafi ekki verið í það minnsta kynnt fyrir utanríkismálanefnd áður en hún var samþykkt á vettvangi NATO.