140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

minnisblað um sölu Grímsstaða á Fjöllum.

[10:57]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni minnisblað efnahags- og viðskiptaráðherra til innanríkisráðherra vegna hugsanlegra kaupa kínversks auðjöfurs á Grímsstöðum á Fjöllum. Þar er margt fróðlegt, t.d. rifjað upp hvað stendur í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna um að stuðla beri að beinum erlendum fjárfestingum. Þar er minnt á samning við Kína frá árinu 1994 þar sem hvatt er til fjárfestinga. Þar er minnt á að stjórnvöld eiga hlut í jörðinni og hafa þannig mikil áhrif á öll nýtingaráform, væntanleg, og þar er sömuleiðis vakin athygli á því að viðkomandi hefur hug á því að afsala sér vatnsréttindum, styðja við þjóðgarð og þannig væru almenningshagsmunir betur tryggðir en ef ekki yrði samið við viðkomandi.

Þá er því einnig lýst að ef ríkið grípur inn í og takmarkar eignarrétt núverandi eigenda sé hugsanlega um bótaábyrgð að ræða. Þá er það einnig rifjað upp að Ísland hefur þurft og mun þurfa erlent fjármagn til hagvaxtar. Uppbygging með erlendu lánsfé leggur mestalla áhættuna á innlendu aðilana á meðan uppbygging með beinu eignarhaldi erlendra aðila færir hins vegar áhættuna til hins erlenda aðila.

Aukinheldur má ekki gleyma því að erlend fjárfesting í ferðaþjónustu fellur vel að þeim áherslum sem jafnaðarmenn vilja hafa í uppbyggingu atvinnulífsins. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver er skoðun hans á fyrirhugaðri uppbyggingu við Grímsstaði á Fjöllum? Hver er skoðun hans á þeim hugsanlegu kaupum sem þar eru í farvatninu? Ég vil ég spyrja hann, bæði sem leiðtoga Vinstri grænna, þingmann kjördæmisins og ekki síður sem fjármálaráðherra landsins, vegna þess að um það erum við flest sammála að hér þarf að ráðast í auknar fjárfestingar til að skapa atvinnu og fátt er fýsilegra til þess en að fá hér inn erlenda fjárfestingu í vaxandi atvinnugreinar.