140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

minnisblað um sölu Grímsstaða á Fjöllum.

[10:59]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Almennt er að sjálfsögðu mikilvægt að ná fjárfestingarstiginu upp, en ég er ekki í þeim hópi sem gerir kannski stærstan greinarmun á því hvort um erlenda eða innlenda fjárfestingu er að ræða. Aðalatriðið er að hér aukist fjárfesting í arðbærum verkefnum sem falla vel að okkar áherslum í atvinnumálum og að öðru leyti til framtíðar litið. Að sjálfsögðu geta erlendar fjárfestingar verið vænlegur kostur í þeim efnum og í tilvikum meiri háttar fjárfestinga hefur það að sjálfsögðu jákvæð áhrif ef eigið fé kemur inn með þeirri fjárfestingu og styrkir grundvöll hennar.

Þetta mál er hins vegar á forræði innanríkisráðherra og er þar til skoðunar og úrvinnslu þó að vissulega megi segja að fjárfestingarmál almennt varði fleiri ráðuneyti. Það er ljóst að samkvæmt gildandi lögum þarf undanþágu frá lögum sem heimila ekki fasteignakaup eða landakaup aðila utan EES-svæðisins nema beitt sé sérstakri undanþágu og þá í þágu skilgreindra og réttmætra atvinnuhagsmuna sem viðkomandi hafi sýnt fram á.

Í þessu tilviki hefur kannski mesta athygli vakið að um er að ræða mikið landflæmi, eða 300 ferkílómetra að upplýst er, og það hreyfir eðlilega við tilfinningum margra og ég viðurkenni fúslega að ég er í þeim hópi. Það hringir engum sérstökum hrifningarbjöllum hjá mér að mjög stór landsvæði komist í hendur utanaðkomandi einkaaðila. Ég geri minni greinarmun en kannski margir á því hvort um er að ræða innlenda eða erlenda einkaaðila. Ég geri aðallega greinarmun á því hvort land er þá í eigu þeirra sem búa á landinu og nýta það eða einhverra utanaðkomandi aðila sem fjárfesta í því í öðru skyni. Áform hins vegar um uppbyggingu í umhverfisvænni ferðaþjónustu þar sem auðnin og öræfakyrrðin er orðin að söluvöru eru mjög áhugaverð og að gera þar út á markað vel borgandi dvalargesta væri sömuleiðis nýmæli í íslenskri ferðaþjónustu. (Forseti hringir.) Ég er þess vegna áhugasamur um að þetta mál sé skoðað og velt upp leiðum til að sætta að ýmsu leyti gagnstæð sjónarmið sem takast á í þessu máli.