140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

minnisblað um sölu Grímsstaða á Fjöllum.

[11:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Málið er í þeim eðlilega farvegi sem stjórnsýsla og lög bjóða, það þarf auðvitað að kanna hvort forsendur séu til staðar til að beita undanþáguheimildinni sem er að finna í lögunum. Hún er skilgreind upp að vissu marki og eðlilegt er að kanna hvort forsendur hennar séu uppfylltar, hvort um sé að ræða þá eðlilegu og réttmætu viðskiptahagsmuni sem eiga að vera forsenda þess, eins og ég skil anda laganna, að veita undanþágu.

Lögin eru eins og þau eru, svo geta menn haft allar skoðanir á því hvort þau eigi að vera einhvern veginn öðruvísi til framtíðar litið. Ég held að persónulegar skoðanir skipti kannski ekki mestu máli hér heldur hitt hvort stjórnvöld komist í sæmilegu samkomulagi að skynsamlegri niðurstöðu í málinu. Ég ætla ekki að segja meira en það sem ég sagði áðan, mér finnst eðlilegt og sjálfsagt að taka málið til efnislegrar skoðunar og láta á það reyna hvort hægt sé að sætta að mörgu leyti þau gagnstæðu sjónarmið sem eru uppi. Við skulum líka horfast í augu við það að margir eru viðkvæmir fyrir því (Forseti hringir.) að stórar landspildur á Íslandi komist í hendur erlendra aðila eða utanaðkomandi einkaaðila. (Forseti hringir.) Hins vegar kunna aðrir hagsmunir að vera þarna til staðar sem (Forseti hringir.) kalla á og réttlæta það að viðkomandi aðili fái lóð undir sitt hótel og geti byggt það.