140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

uppbygging í orkufrekum iðnaði.

[11:08]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst hæstv. ráðherra vera í miklu bjartsýniskasti. Það er ljóst að annar samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn hafnar allri málamiðlun um rammaáætlun. Það liggur fyrir að einstakir þingmenn Vinstri grænna hafa lagt ríkisstjórnarsamstarfið að veði varðandi virkjanir í neðri Þjórsá. Það liggur fyrir að ekki er hægt að taka ákvarðanir um næstu skref í orkufrekum iðnaði og uppbyggingu virkjana á Íslandi nema um virkjanir í neðri Þjórsá. Ef við tökum ekki ákvarðanir um það munum við framlengja kreppuna um nokkur ár vegna þess að engir aðrir raunhæfir virkjunarkostir eru á borðinu. Undirbúningur er kominn svo skammt á veg annars staðar að ekki er hægt að taka ákvörðun um það.

Í ljósi yfirlýsinga Vinstri grænna er útilokað að hugsa sér að vinnu við rammaáætlun ljúki í þinginu í vetur vegna þess að ríkisstjórnarsamstarfið liggur að veði. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að hún svari því skýrt og skorinort hvort hún sé sammála (Forseti hringir.) því að næsti virkjunarkostur sem við getum tekið ákvörðun um sé neðri Þjórsá og hvort hún sé hlynnt því, ef við gefum okkur að rammaáætlun ljúki í vor, (Forseti hringir.) að hefja framkvæmdir samkvæmt framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar á næsta ári.