140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

áhrif einfaldara skattkerfis.

254. mál
[11:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að leggjast gegn þessari skýrslubeiðni, henni er beint til fjármálaráðherra. En ég vek athygli virðulegs Alþingis á því, og kannski ekki síst forsætisnefndar og formanna þingflokka, að hér er í raun og veru um að ræða beiðni um skýrslu frá fjármálaráðuneytinu um tilteknar pólitískar áherslur í skattamálum. Ekki er verið að biðja um greiningu á einhverju hlutlægu ástandi heldur er verið að biðja um að fjármálaráðuneytið leggi í umtalsverða vinnu til þess að gera útreikninga á rammpólitískri stefnu Sjálfstæðisflokksins í skattamálum.

Ég vil vekja athygli á því að það er umhugsunarefni fyrir þingið hvort skýrslubeiðnir og upplýsingaöflun og fagleg umfjöllun um mál, en það er sjálfsagður og mikilvægur réttur þingsins að geta krafist skýrslna, (Forseti hringir.) eigi að vera í sama farvegi og óskir um að tiltekið ráðuneyti leggi mikla vinnu í útreikninga og leggi mat á það sem er í raun pólitísk stefna eins stjórnmálaflokks.