140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

beiðni um sérstaka umræðu um sparisjóði.

[11:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að blanda mér í uppröðun mála á dagskrá þingsins að öðru leyti en því að upplýsa að ég fékk um það skilaboð síðdegis í gær að áhugi væri á því að taka umræðu um framtíð sparisjóðanna. Ég kom þeim skilaboðum áleiðis að ég sæi ekkert því til fyrirstöðu að gera það í næstu viku. Ég hafði hins vegar erfiðar aðstæður til að gera það með innan við sólarhrings fyrirvara. Það hefur verið nokkuð þéttskipuð dagskrá hjá mér, bæði í gær og fram á daginn í dag, auk þess sem það stendur þannig á að fundarhöld verða í ráðuneytum og milli ráðuneyta um nákvæmlega þetta mál báðum megin helgarinnar þannig að ég reikna með því að það væri í þágu umræðunnar að hún færi fram vel undirbúin á fyrstu dögum í næstu viku.

Réttur þingmanna til að beiðast utandagskrárumræðu er mikilvægur en ég kannast ekki við annað en að ég hafi yfirleitt brugðist nokkuð vel við slíkum beiðnum og verið allþolinmóður í þeim efnum, til dæmis tekið nokkuð reglubundið utandagskrárumræðu um sama mál við hv. þm. Guðlaug Þ. Þórðarson með tveggja, þriggja vikna millibili. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Ég hef látið mig hafa það þó að deila megi um hversu skilvirkt það sé að ræða aftur og aftur sama málið. Það stendur ekki á mér og hefur ekki staðið á mér að taka þessa umræðu en ég held að það sé í þágu hennar að hún sé vel undirbúin og geti farið fram við heppilegar aðstæður. Það er auðvitað ekki þannig (Forseti hringir.) að ráðherra beri skilyrðislaust með engum fyrirvara að mæta til slíkrar umræðu þó að honum beri að sjálfsögðu að taka hana þegar því verður við komið.