140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:16]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir framsögu sína og vil að hér komi fram, í tengslum við umræðuna um Vaðlaheiðargöng, að umhverfis- og samgöngunefnd, hin háa, núverandi arftaki samgöngunefndar, sem áður var — formaður hennar hefur skrifað bréf til forsætisnefndar með beiðni um að forsætisnefnd fái Ríkisendurskoðun til að gera úttekt, með leyfi forseta: „á áætluðum kostnaði og þeim tekjuforsendum og öðrum forsendum sem liggja að baki við gerð Vaðlaheiðarganga. Jafnframt óskar nefndin eftir því að gerð verði heildarúttekt miðað við breytingar á forsendum (næmnigreining) og á getu Vaðlaheiðarganga ehf. til greiðslu afborgana og vaxta af lánsfjármögnun án aðkomu ríkissjóðs“ o.s.frv.

Fagnefndin hér á þinginu, sú sem fjallar um samgöngumál, er því að vinna ákveðna vinnu og ég vænti þess að fjárlaganefnd afgreiði málið ekki endanlega frá sér fyrr en þeirri vinnu er lokið og óska staðfestingar á því hjá hv. þingmanni.