140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir hlý orð í garð bæði formanns og hv. nefndar í upphafi ræðu sinnar. Þarna sýndi hann að hann er vanari en ég því að ég hefði að sjálfsögðu átt að þakka nefndinni fyrir gott samstarf og ekki síður fyrir liðlegheit svo við gætum flýtt afgreiðslu þessa máls. Geri ég það hér með og hef væntingar til áframhaldandi góðs samstarfs.

Þegar íslenska fjármálakerfið og gjaldmiðillinn hrundu samtímis haustið 2008 var gefin út yfirlýsing um að allar innstæður í fjármálastofnunum væru tryggðar. Væntanleg útgjöld ríkissjóðs vegna SpKef eru til komin m.a. vegna þeirrar yfirlýsingar sem var liður í því að verja landið fullkomnu hruni. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að hann teldi það firru að fjárlög stæðust í megindráttum þegar búið væri að bæta við túlkun minni hlutans, sem ég held að eigi að mörgu leyti fullan rétt á sér.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Telur hann maklegt að orða það með þessum hætti? Ég tel að fjárlög standist í öllum megindráttum að því er lýtur að mögulegu valdsviði ríkisstjórnarinnar til þess að framfylgja þeim. Síðan kemur til kostnaður vegna hruns bankakerfisins og það er kostnaður sem var auðvitað mestur í fyrstu en fer síðan minnkandi smám saman. Ég spyr hv. þingmann: Telur hann maklegt að dæma (Forseti hringir.) góða framgöngu ríkisstjórnarinnar í því að framfylgja fjárlögum (Forseti hringir.) út frá þessum útgjöldum?