140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:57]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Fyrst vil ég segja við hv. þingmann, ef hann ljær því eyra, að það er ekki ríkisábyrgð á innstæðum. Það er yfirlýsing ríkisstjórnar.

Í annan stað er það rangt að ekki hafi verið áætlanir um hallalaus fjárlög. Þeim var breytt og er verið að breyta af núverandi ríkisstjórn, nú er verið að fresta því að ná heildarjöfnuði. Það er ekkert leyndarmál og þarf heldur ekki að draga fjöður yfir það. Það er tilgangslaust að halda því fram að niðurstaðan eins og hún blasir við í fjáraukalagatillögum meiri hlutans standist þær áætlanir sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hafa gert, það er beinlínis rangt.

Því miður heyrist mér hv. þingmaður vera dottinn í sama farið og hæstv. fjármálaráðherra gerir iðulega þegar hann leggur fram fjárlög eða fjáraukalög, að píra út upplýsingar þannig að heildarmyndin blasi ekki strax við. Hvers lags leikfimi er það? Af hverju í ósköpunum geta menn ekki bara viðurkennt og rætt það að hér stefni í það að heildarjöfnuður á fjárlögum ársins 2011 verði nær 60 milljörðum en þeim 37 sem fjárlögin gerðu ráð fyrir? Hvers vegna má ekki ræða það heiðarlega og opið í stað þess að leita einhverra leiða til að kenna einhverjum öðrum um en þeim sem um málin véla?

Það er bara svona og orðræða breytir því ekki neitt. Vandinn sem við okkur blasir birtist í þeirri niðurstöðu sem við ræðum um, ekki því hvað var gert eða hvernig, hverjum um er að kenna o.s.frv. Vandinn sem blasir við okkur er ekki sá. Hann er sá að heildarjöfnuður á árinu 2011 stefnir í að verða um 60 milljarðar ísl. kr.