140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:00]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er fámennt en góðmennt í salnum og vona ég að félagar mínir í fjárlaganefnd fari að skila sér hingað inn. Ég ætla nefnilega að byrja á því að þakka þeim fyrir samvinnuna í nefndinni. Við erum ósammála um margt en þó sammála um ýmislegt og vinnan hefur gengið ágætlega. Við í minni hlutanum vorum sammála því að flýta umræðunni um heila viku. Þess vegna er hún í dag en ekki í næstu viku eins og boðað var í starfsáætlun þingsins.

Ríkisstjórnin hefur sett sér áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013 og þau markmið koma helst fram í skýrslu sem fjármálaráðherra sendi frá sér í júlí. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í áætlun þeirri, sem hér er birt, eru dregin saman þau markmið í ríkisfjármálum sem íslensk stjórnvöld hafa einsett sér að ná á komandi árum.“

Fyrir fáeinum vikum síðan ræddum við frumvarp til fjárlaga við 1. umr. málsins. Þar kom fram áhersla ríkisstjórnarinnar á frumjöfnuð, þ.e. að ríkisstjórnin hefði náð að auka tekjurnar það mikið að þær væru orðnar hærri en útgjöldin. Ég gagnrýndi þá framsetningu harðlega vegna þess að ég taldi að hún sýndi ekki rétta mynd af stöðu þjóðarbúsins því að þar vantaði alla fjármagnsliði eins og vaxtakostnað. Það er eins og í heimilisbókhaldi fjölskyldu sem dregið hefur saman seglin þannig að útgjöldin eru minni en tekjurnar en vaxtakostnaðurinn af húsnæðinu og bílnum er settur til hliðar.

Í skýrslunni einsetti ríkisstjórnin sér ekki bara að ná fram ákveðnum markmiðum varðandi frumjöfnuð heldur líka varðandi heildarjöfnuð, hagvöxt og verðbólgu. Á bls. 4 kemur fram að í þjóðhagsspá fyrir árið 2009–2013 segir að hér gæti verið um 4,4% hagvöxtur á árinu 2011. Eins og flestir vita var það markmið langt frá því sem við búum við í dag þegar hagvöxturinn mælist rétt um 1,5%. Og ekki eru horfurnar góðar vegna þess að ASÍ spáir því að hér verði um 1% hagvöxtur á næsta ári, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir um 1,6% en Seðlabankinn hefur reyndar hækkað spá sína upp í 2,9%. Engu að síður eru þessar hagvaxtarspár langt undir þeim markmiðum sem ríkisstjórnin setti sér sjálf. Það er afar sérstakt, verð ég að segja.

Áður en ég held lengra verð ég að viðurkenna að það er mjög sérstakt að ræða þetta mikilvæga mál fyrir tómum sal jafnvel þótt einn ágætur þingmaður hafi nú birst í salnum. Mér þætti vænt um ef hægt væri að athuga hvort ráðherrar, formaður fjárlaganefndar og fleiri vilji ekki sýna Alþingi þann sóma að sitja undir umræðum.

(Forseti (ÁI): Það eru allmargir þingmenn og a.m.k. einn ráðherra skráðir í hús og þess er að vænta að þeir heyri mál þingmannsins.)

Gott og vel. Ég treysti því að þeir séu að fylgjast með annars staðar. En ég var búinn að ræða hagvöxtinn og ég tel að ríkisstjórninni hafi mistekist hvað hagvöxtinn varðar enda eru svo sem engar áætlanir, hvergi er að finna merki um erlenda fjárfestingu til að hækka hagvöxt. En það er annað markmið og það er verðbólgumarkmiðið. Við búum við verðbólgu sem mælist nú um 5,7%. Það hefur áhrif á skuldir heimilanna sem þurfa svo nauðsynlega á aðstoð að halda og kannski fyrst og fremst skilningi frá stjórnvöldum. En markmiðið sem ríkisstjórnin setti sér var að á árinu 2011 yrði vísitala neysluverðs um 1,7%. Þarna munar einum 4% sem er gríðarlegt frávik og enn eitt dæmi um árangursleysi ríkisstjórnarinnar í fjármálum. Þess ber að geta að þetta eru markmið sem ríkisstjórnin setti sér sjálf og ég hefði talið að miðað við þann undirliggjandi styrk sem býr í efnahagskerfi þjóðarinnar hefði jafnvel verið hægt að setja markið hærra en ríkisstjórnin gerði.

Ríkisendurskoðun gaf út umsögn sína um frumvarp til fjáraukalaga, það frumvarp sem hér er til umræðu, auk umsagnar um frumvarp til fjárlaga 2012 og lokafjárlaga 2010. Það er gott að sjá og finna að Ríkisendurskoðun tekur undir gagnrýni mína á framsetningu á rekstraryfirliti ríkissjóðs. Þar segir á bls. 4, með leyfi forseta:

„Í 1. gr. fjárlaga, [um] rekstraryfirlit ríkissjóðs, eru notuð hugtökin heildarjöfnuður og frumjöfnuður. Þetta er hliðstætt því sem gert var í frumvarpi til fjárlaga og í fjárlögum 2011 (nema þar var talað um heildartekjujöfnuð). Þessi framsetning hafði hins vegar ekki tíðkast fram til þess tíma. Með frumjöfnuði er átt við afkomu ríkissjóðs án vaxtagjalda. Samkvæmt 22. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, skal í frumvarpi til fjárlaga sýna áætlaðan rekstrarreikning fyrir ríkisaðila í A-hlut[a]. Samkvæmt því á ekki að sýna millistærð rekstrarreiknings ríkissjóðs sem lokaútkom[u] reikningsins, þ.e. að sýna áætlaða jákvæða afkomu að fjárhæð 16,9 milljarða kr. í stað áætlaðs tekjuhall[a] að fjárhæð 36,4 milljarða kr.“

Með öðrum orðum, það á ekki að leggja ofuráherslu á frumjöfnuð heldur heildarjöfnuð.

Svo segir áfram, með leyfi forseta:

„Ætla verður að fyrir stjórnvöldum vaki með þessari nýju framsetningu að leggja sérstaka áherslu á frumjöfnuðinn. Að mati Ríkisendurskoðunar ætti fremur að sýna frumjöfnuð sem millistærð á undan vaxtagjöldum í rekstraryfirlitinu.“

Ég vek athygli á töflu í nefndaráliti meiri hlutans þar sem greinilega má sjá að það verður að vera búið að taka frumjöfnuð og vaxtajöfnuð saman þegar við förum yfir stöðu hvers árs og stöðu ríkissjóðs.

Það gerir það að verkum að í lokaútkomu reikningsins er sýnd jákvæð afkoma í fjáraukalögum upp á 16,9 milljarða kr. en áætlaður tekjuhalli nemur hins vegar 36,4 milljörðum kr. Minni hlutinn telur að ríkisstjórnin eigi að fylgja fyrirmælum laganna og sýna frumjöfnuð sem millistærð á undan vaxtagjöldum á yfirlitinu. Eins og áður sagði vorum við í 2. minni hluta ósátt við framsetningu meiri hlutans og framsetningu fjármálaráðherra þannig að við tókum okkur til og færðum inn í töfluna ýmis útgjöld og jafnvel minni tekjur sem við teljum að sýni rétta niðurstöðu. Það sem gerist er að heildarjöfnuðurinn fyrir 2011 verður neikvæður um 59,1 milljarða kr. sem er ríflega 13 milljörðum kr. verri afkoma en fram kemur í yfirliti fjármálaráðuneytisins. Þá ber sérstaklega að geta þess að töluverðar líkur eru á að gjöldin hækki enn meira og að afkoman verði þeim mun verri ef niðurstaða úrskurðarnefndar í sparisjóðsmálinu, svo dæmi sé tekið, verður ríkissjóði óhagfelld.

Ef við tökum sérstaklega fyrir breytingu á tekjum er í frumvarpinu felld niður áætlun um arðgreiðslur Landsvirkjunar að fjárhæð 800 millj. kr. en alls er gert ráð fyrir að arðgreiðslur lækki um helming frá áætlun fjárlaga. Þó svo að ekki sé gert ráð fyrir miklum breytingum á heildartekjum eru frávik fjárlaga í nokkrum tekjutegundum umtalsverð. Þess vegna er vakin athygli á því að þótt tekjur vegna innheimtu kolefnisgjalds skili um 700 millj. kr. hærri tekjum en gert var ráð fyrir í fjárlögum liggja ekki fyrir upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu sem skýra ástæðurnar. Ráðuneytið getur heldur ekki greint frá því á hvaða atvinnugreinar gjaldið leggst. Þess vegna verð ég enn á ný að taka undir ábendingar Ríkisendurskoðunar um að færa skattafrádrátt vegna kostnaðar fyrirtækja við nýsköpunarverkefni á gjaldalið þess í stað þess að draga hann frá tekjum þó svo að framsetningin breyti ekki afkomu ríkissjóðs.

Okkur í minni hlutanum og meiri hlutanum greinir reyndar á um áherslur Ríkisendurskoðunar vegna þess að í áliti meiri hlutans segir, með leyfi forseta:

„Að mati Ríkisendurskoðunar er agi meiri nú en áður þegar kemur að því að samþykkja ný útgjöld í fjáraukalögum …“

Ég fór yfir álit Ríkisendurskoðunar og ég finn hvergi þá setningu. Ég sat á fundinum með Ríkisendurskoðun og kannski hef ég upplifað hann öðruvísi en meiri hlutinn, ég geri ráð fyrir því, en ég minnist þess ekki að hann hafi hrósað meiri hlutanum sérstaklega fyrir vandaðri vinnubrögð og meiri aga nú en áður. Þá vil ég, líkt og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, gagnrýna setningu í meirihlutaáliti fjárlaganefndar þar sem segir að viðhorf stjórnvalda og Alþingis til ríkisfjármála hafi breyst verulega til batnaðar að undanförnu. Við eigum virkilega langt í land og ég held að á þeirri vegferð sé engum greiði gerður með að fullyrða út í loftið án þess að fyrir því liggi haldbær rök eða staðreyndir.

Ég er sammála því að æ fleiri geri sér grein fyrir mikilvægi þess að góð stjórn sé á fjármunum ríkisins og að vanda þurfi bæði áætlanagerð og eftirfylgni með útgjöldum. Ef svo væri væri minni hlutinn ekki með margra blaðsíðna álit sem gerir í rauninni lítið annað en að gagnrýna það verklag sem því miður er enn þá á fjárlagagerð.

Eitt af stærstu málum ríkisstjórnarinnar þegar fjárlögin fyrir árið 2011 voru samþykkt í desember á síðasta ári var að þar var gert ráð fyrir 6 milljarða tekjum vegna hlutdeildar banka, sparisjóða og lífeyrissjóða í sérstökum vaxtaniðurgreiðslum til heimila. Í ljósi þess var lagður sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 155/2010, en sú skattheimta náði ekki til lífeyrissjóða. Ég veit að nú standa yfir einhvers konar samningaviðræður um að lífeyrissjóðirnir komi með fjármagn upp á 1,4 milljarða inn í ríkissjóð en það liggur ekkert fyrir í hvaða formi sú fjárhæð verður, hvort hún verður í formi skatts eða einhvers konar styrks. Eins og Ríkisendurskoðun bendir réttilega á er ekki hægt að gera ráð fyrir þeim tekjum fyrr en þær eru 100% í hendi. Ég er þeirrar skoðanir núna að í staðinn fyrir að meiri hlutinn kalli á bankana, á lífeyrissjóðina, taki meiri hlutinn af skarið — þeir eru í ríkisstjórn, þeir stjórna — og setji lög um viðbótarskatt sem gerir það að verkum að ekki þarf að standa í stappi við banka og lífeyrissjóði og við þurfum ekki að koma upp í ræðupúlt Alþingis til að ræða það mál trekk í trekk.

Mig langar til að víkja sérstaklega að Vaðlaheiðargöngum vegna þess að ég finn að þau eru hugðarefni margra þingmanna, sérstaklega þeirra sem eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég undrast dálítið þá umræðu. Ég undrast að umhverfis- og samgöngunefnd skyldi hafa tekið málið upp, mál sem er 100% á forræði fjárlaganefndar, en gott og vel. Ég tel nefnilega miklu meiri þörf á því að við ræðum byggingu hátæknisjúkrahúss, stærstu framkvæmd Íslandssögunnar ef af henni verður. Þar er fjármögnunin svipuð og á Vaðlaheiðargöngum fyrir utan eitt mikilvægt atriði, þ.e. að íbúar á Norðurlandi eða þeir sem keyra í gegnum Vaðlaheiðargöng ætla að greiða fyrir göngin. En ég tel að hátæknisjúkrahús verði ekki greitt öðruvísi en úr vasa skattgreiðenda og þá allra skattgreiðenda og þar er mikill munur á að mínu mati.

Síðan vil ég vekja athygli á því, vegna þess að hér hafa heyrst raddir um að göngin hafi ekki verið á samgönguáætlun, að Vaðlaheiðargöng hafa vissulega verið á samgönguáætlun sem sérstök framkvæmd sem á að standa undir sér. Henni var ekki stillt upp fram fyrir einhver önnur verkefni eða fyrir aftan. Ég skora á ríkisstjórnina að halda áfram með þau verkefni sem þar eru fremst í flokki, eins og t.d. Norðfjarðargöng. Ég sé ekki hvernig þessi framkvæmd á að hafa nokkur áhrif á að Norðfjarðargöng verði að veruleika.

Ég vil líka segja að ég tel að göngin muni standa undir sér og mér finnst þær áætlanir sem stjórn Vaðlaheiðarganga hefur sett fram varlegar ef eitthvað er. Í dag er reiknað með að um 1163 bílar keyri þar í gegn á dag og þar eru allir sammála um að greiða hóflegt veggjald, eitthvað í kringum 1 þús. kr. Það þýðir að göngin verða greidd upp á 25–26 árum. Ég vil samt taka það fram að allar þær tölur eru frekar varlega áætlaðar heldur en hitt. Nýlegar rannsóknir sýna að til dæmis keyra mun fleiri bílar í gegnum Héðinsfjarðargöng en í upphafi var talið.

Nú er tími minn á þrotum. Ég ítreka þakkir mínar til nefndarmanna í fjárlaganefnd og vonast til að eiga þar gott samstarf.