140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Ég hjó eftir tvennu og ég vona að ég hafi heyrt rétt. Hv. þingmaður sagði að það ætti að vinda sér í, meira að segja að ráðuneytið ætti að vinda sér í, að semja lög um að skattleggja lífeyrissjóðina til að ná í þá peninga sem vantar upp í vaxtabætur. Ég vil spyrja hvort ég hafi heyrt rétt. Auðvitað er það Alþingi sem samþykkir lög en ekki ráðuneytið og ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann sér þetta fyrir sér.

Í öðru lagi eru það Vaðlaheiðargöngin. Þar er forsendan sú að 90% af bílum muni keyra í gegnum dimm göng á björtum sumardegi í staðinn fyrir að keyra eilítið lengra um hið fallega Víkurskarð út með Eyjafirði. Telur hv. þingmaður þetta raunhæft? Ég mundi miklu frekar vilja keyra í sólskininu úti og horfa á Eyjafjörðinn meðan ég keyri þarna fram hjá, svo ég tali ekki um Víkurskarðið sjálft sem er mjög sérstakt.

Hvað gerist ef áætlanir eða forsendur stjórnar Vaðlaheiðarganga hf. bregðast og allt í einu vantar pening eins og núna í Hörpunni? Hver ber þá ábyrgð? Mun einhver annar borga það en ríkissjóður?