140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:27]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vaðlaheiðargöng og framkvæmdin við þau er auðvitað háð einhverjum breytum og ýmis atvik geta gerst. Ég átta mig á því. En ég vil samt taka mjög skýrt fram að allar áætlanir um umferð í gegnum göngin eru mjög varlega áætlaðar og þær hafa frekar orðið varfærnari á undanförnum mánuðum en hitt. Ef eitthvað bregður út af mun kostnaðurinn lenda á þeim sem keyra í gegnum göngin.

Ég vil taka sérstaklega fram að íbúar í Þingeyjarsýslu eru reiðubúnir að leggja fram mikið hlutafé í gegnum sveitarfélögin sín, hærra hlutafé, sem þýðir einfaldlega að hluti skatttekna þeirra fer í framkvæmdina. Það sýnir viljann á svæðinu til þess að hún verði að veruleika. Ég skora á hv. þingmenn að einbeita sér frekar að hátæknisjúkrahúsinu og þeirri framkvæmd vegna þess að við getum verið sammála um að þar kemur allur peningurinn úr vasa skattgreiðenda, allra skattgreiðenda, ekki bara þeirra sem nota hátæknispítalann. — Ég sé að ég á heilar átta og hálfa mínútu til að svara hv. þingmanni og er það ágætt.

Varðandi lífeyrissjóðina held ég að okkur greini svolítið á um þá. (Gripið fram í.) Lífeyrissjóðirnir verða einfaldlega eins og aðrir (PHB: Hver á þá?) — almennir sjóðfélagar, ég átta mig alveg á því — þeir verða eins og aðrir að taka þátt í því uppgjöri sem fer fram. Það er staðreynd málsins. Við verðum líka að átta okkur á því að með neyðarlögunum var kökunni misskipt á milli þeirra sem áttu pening og þeirra sem skulduðu. Lífeyrissjóðirnir áttu m.a. í peningamarkaðssjóðum bankanna sem var bjargað, (Forseti hringir.) ekki rétt? Þannig að ég held að lífeyrissjóðirnir verði einfaldlega að taka þátt í uppgjörinu og mæta skuldugum heimilum í staðinn fyrir að standa til hliðar. (Forseti hringir.) Ég er þeirrar skoðunar að taka verði harðar á málum ef þeir ætla að sitja hjá og vera til hliðar á öllum tímum.