140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:44]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þær tölur sem Vegagerðin setti fram í gær eru réttar að því leytinu til að í þeim er tekið tillit til verðbólgu og gengisfalls. Fyrirtæki og stofnanir sem gera áætlanir á Íslandi án þess að gera ráð fyrir verðbólgu í áætlunum sínum gera ekki réttar áætlanir. Fyrirtæki á Íslandi sem gera áætlanir um hluti án þess að taka tillit til gengisstigs, sérstaklega þegar við erum að ræða fjárgreiðslur til erlendra aðila (Gripið fram í.) án þess að tekjur í erlendum gjaldmiðli komi á móti … (KLM: … gert ráð fyrir gengismuninum.) Frú forseti, gæti ég fengið frið til að svara þingmanninum? — þau eru ekki að gera réttar áætlanir. Áætlanir Vegagerðarinnar hafa aldrei staðist. Þær eru ekki eins slæmar ef menn reikna verðbólguáhrifin inn í eftir á og segja: Ja, þetta er bara af því að það var verðbólga. Það er engin afsökun. Menn eiga að sjálfsögðu að reyna að gera sér grein fyrir þróun og verðbólgu og gjaldmiðilsáhættu í framkvæmd. Við erum með hvert sveitarfélagið á fætur öðru á hausnum vegna þess að þau gerðu áætlanir nákvæmlega eins og Vegagerðin. Þau komast ekki upp með að segja: Áætlanir okkar voru ekkert rangar af því að gengið féll. Þau þurfa að borga skuldirnar og það eru skattgreiðendur á Ísland sem þurfa að borga fyrir jarðgöngin, Héðinsfjarðargöng, Bolungarvíkurgöng. Þetta eru fínar framkvæmdir, alveg prýðisframkvæmdir, en áætlanirnar um gerð þeirra voru rangar og það er kominn tími til að þessar stofnanir fari að gera raunhæfar áætlanir. Miðað við söguna er ekki hægt að treysta Vegagerðinni með Vaðlaheiðargöng.