140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:48]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru kunnugleg rök landsbyggðarþingmanna í kjördæmapotsleiðangri að stilla upp landsbyggðinni (Gripið fram í.) gegn höfuðborgarsvæðinu. Þetta mun sem betur fer líða undir lok þegar þjóðin hefur samþykkt nýja stjórnarskrá.

Þetta er ekki þannig, hv. þm. Kristján L. Möller, að ég sé á móti framkvæmdum á landsbyggðinni. Ég hef alla tíð sagt það í umræðu minni um Vaðlaheiðargöng að ég telji þau vera prýðisgóða samgöngubót en hún er hins vegar ekki forgangsatriði á samgönguáætlun og aðferðin við að koma henni í framkvæmd er mjög óeðlileg. Ég stend við það.

Mér var kennt í hagfræði að gera vandaðar áætlanir og í vönduðum áætlunum taka menn tillit til hugsanlegrar verðbólgu og sveiflu á gjaldeyrismörkuðum til dæmis og kaupa sér tryggingar gegn slíku. Með sömu rökum hv. þingmanns væri hægt að núllstilla skuldir allra sveitarfélaganna á landinu af því að það kom verðbólga eftir á og gengisfall eftir að þau gerðu áætlanir sínar og þess vegna skulda þau ekki neitt í dag. En niðurstaðan er einfaldlega sú að skattgreiðendur borga reikninginn þegar upp er staðið, hvort sem það verður verðbólga eða ekki, reikningurinn verður bara hærri því hærri sem verðbólgan er. Framkvæmdakostnaður við jarðgöng hefur ævinlega verið hærri en menn hafa reiknað með. Vonandi fara þær tölur að lagast vegna þess að Íslendingar eru búnir að afla sér allmikillar sérfræðiþekkingar í jarðgangagerð núorðið og væri því óskandi að áætlanir í framtíðinni stæðust betur.

En úr því að hv. þingmaður segir að ég sé með sleggjudóma, spyr ég: Hvers vegna er ekki í forsendum fyrirtækisins Vaðlaheiðarganga hf., þar sem hv. þingmaður er meðal annars í stjórn, ein einasta tala eða áætlun um tekjur fyrirtækisins, hvergi?