140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, ef til kæmi einhvers konar gjaldtaka eins og hann lýsti hér þyrfti að sjálfsögðu að fella niður eða lækka bensíngjöldin. Bensíngjöldin eru notkunargjöld og eru aðferð sem við höfum til að láta menn greiða fyrir akstur sinn. Eftir því sem menn keyra meira, þeim mun meira greiða þeir. Það er þá óháð því hvaða götur eru farnar.

Þegar kemur að gjaldtöku vegna ferða innan byggðar held ég að ég sé ekki tilbúinn að lýsa því yfir að ég styðji gjaldtökuhugmyndir. Á stofnvegakerfinu öllu, þjóðvegunum, geta menn hins vegar velt þessu fyrir sér sem valkosti gagnvart bensíngjaldinu þegar fram líða stundir. Það er sjálfsagt að hugsa þessa hluti og það er sjálfsagt að vera opinn fyrir öllum nýjum hugmyndum um þetta. Hagsmunirnir eru mjög miklir fyrir okkur Reykvíkinga.

Við erum tilbúin að fallast á það, í það minnsta ég og margir aðrir, að flugvöllurinn verði hér áfram. En þá verður líka að mæta því af skilningi af hálfu Alþingis gagnvart Reykjavík að ráðist verði í samgönguframkvæmdir sem stytta umferðartímann í borginni. Það eru tugþúsundir manna sem sitja allt of lengi fastar í umferðinni á hverjum einasta degi og það er mjög dýrt. Það er alveg sérstakt mál hvernig það verður fjármagnað, en ég ítreka að ég get ekki tekið undir hugmyndir um sérstaka gjaldtöku með sama hætti og gert verður með Vaðlaheiðargöng eða Hvalfjarðargöng á brautir innan borgarinnar, ekki frekar en ég mundi opna á þá hugmynd með til dæmis Hafnarfjörð eða Akureyri.

Ég ítreka að það liggur á að sátt náist um slíkar framkvæmdir og að í þær verði ráðist, að fundin verði leið til að fjármagna þær. Það skiptir miklu máli.