140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:33]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Við 2. umr. um frumvarp til fjáraukalaga, eftir yfirferð fjárlaganefndar, hefur umræðan í dag að mestu leyti ekki verið um fjáraukann heldur um samgönguframkvæmdir. Sem fyrrverandi samgönguráðherra fagnaði ég því, ég fagna því alltaf þegar mikil og góð umræða er um samgönguframkvæmdir á Íslandi vegna þess að ekki veitir af. En sitt sýnist hverjum og hér hefur komið fram í umræðunni sá ágreiningur og skoðanaskipti sem oft og tíðum eru milli þingmanna þegar að slíkum framkvæmdum kemur. Eins og ég hef áður sagt eru landsbyggðarþingmenn ásakaðir um kjördæmapot, ef rætt er um einhverjar vegaframkvæmdir eða annað, en þegar þingmenn höfuðborgarsvæðisins voru að pota áfram Hörpu til byggingar eftir hrunið 2008 var ekki kallað neitt kjördæmapot. Það var eitthvað allt annað.

Til að byrja með ætla ég að gera þrjú atriði að umtalsefni í breytingartillögum við þann fjárauka sem hér liggur fyrir. Það er tónlistarhöllin Harpa og síðan kaup á auðlindum á Reykjanesi og svo Vaðlaheiðargöng. Fyrst um Hörpu. Ég sat í þeirri ríkisstjórn sem fékk þetta í höfuðið þegar hrunið varð og hálfbyggð Harpa. Ég var algjörlega sammála því að halda ætti áfram og klára það verk vegna þess að ekki gat hún staðið á fegursta stað Reykjavíkur sem hálfkarað verk, sem minnisvarði um hrunið. En ég hef tekið eftir því hvernig framkvæmdir hafa gengið og hef lesið um það sem menn skrifa um áhyggjur af glerhjúpnum og annað, það á eftir að koma í ljós eins og gengur og gerist. En þetta er búið sem betur fer og við getum verið stolt af því en þetta kostaði sitt. Í breytingartillögum frá hv. fjárlaganefnd kemur hins vegar beiðni um 700 millj. kr. til Hörpu, skammtímalán, þar til samið hefur verið um langtímafjármögnun verkefnisins. Komið hefur fram að hlutur ríkisins er 400 millj. kr. Gott og vel, það verður að klára verkið og auðvitað verður að borga reikninga, jafnvel reikninga fyrir það sem fer fram úr áætlun eins og gengur og gerist, sama hvort það er bygging Hörpu, jarðgöng eða önnur verkefni. Svo geta menn spurt um hvort áætlanir hafi verið vitlausar eða verkinu breytt, bætt við o.s.frv.

Það sem vekur athygli mína og ég vil gera að umtalsefni er að hv. fjárlaganefnd setur ekki fram nein skilyrði um þá peninga sem þarna koma fram líkt og gert er við annað verkefni sem ég ætla að ræða á eftir, þ.e. Vaðlaheiðargöng. Það finnst mér dálítið skrýtið. Og þótt tekin hafi verið ákvörðun fyrir nokkuð mörgum árum að byggja Hörpu er þetta samt sem áður ekki endalaust þannig að hægt sé að taka bara við reikningum og verið að bæta við. Mér finnst það mjög faglegt hvernig fjárlaganefnd er farin að vinna og fara í gegnum verk og skoða, vill hafa allt saman klappað og klárt og allt 100% og róa fyrir allar víkur. Því undrast ég að það skuli ekki vera gert þarna.

Hið sama á við, virðulegi forseti, um það sem heitir í frumvarpinu að heimilt sé að kaupa „land og jarðhitaréttindi í landi Kalmanstjarnar og Junkaragerðis á Reykjanesi af Reykjanesbæ“. Hér kom fram hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni að þetta væru um 1.230 millj. kr. ef ég man rétt. Það kemur sem sagt inn sem heimildarákvæði til að kaupa þetta og ég spyr: Hvaða reiknilíkön og arðsemisútreikningar hafa verið gerðir við kaup á því landi? Hvenær verða þessi kaup búin að borga sig upp? Er þetta arðbær fjárfesting? Stendur hún undir sér líkt og talað er um með Vaðlaheiðargöng eða lendir þetta á ríkissjóði og skattborgurum landsins? Eða er verið að taka þetta af Reykjanesbæ, sem ég þekki sem fyrrverandi ráðherra sveitarstjórnarmála að er stórskuldugt sveitarfélag?

Ég man að það skuldaði fjármagnstekjuskatt út af einhverju skuldabréfi, gott ef það var ekki vegna sölu á HS Orku. Þarna á að skuldajafna hvað það varðar. Engu að síður eru þetta að sjálfsögðu peningar sem koma úr ríkissjóði og verða notaðir þarna. En hvaða arð mun fjárfestingin bera? Hefur sú skoðun verið gerð? Er ekki eðlilegt að það sé gert?

Þá kem ég að því sem hér hefur verið mest rætt um, þ.e. þeim heimildum sem þarf að setja inn í fjáraukalög vegna framkvæmda við Vaðlaheiðargöng. Ég vil taka skýrt fram að ég sit í stjórn þess fyrirtækis sem fulltrúi fyrir ríkið svo það sé haft á hreinu. Ég vil fara aðeins aftur í forsögu þessa máls og segja, virðulegi forseti, að til þessa alls var stofnað af hæstv. ríkisstjórn með svokölluðum stöðugleikasáttmála sem gerður var árið 2009, ef ég man rétt á þeim ágæta degi 25. júní. Þar voru rituð inn ýmis verkefni, og ég hef sagt áður að ég sem þáverandi samgönguráðherra sá þá, þegar þetta var kynnt, þau hliðargögn sem voru með um samgönguframkvæmdir, þ.e. framkvæmdir á suðvesturhorninu, Reykjanesbraut, Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur til Selfoss, Vaðlaheiðargöng og þar kom inn stækkun flugstöðvar á Akureyri og bygging samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll. Ég, sem þá var samgönguráðherra, fékk það verkefni að vinna að þeim málum og fara í viðræður við lífeyrissjóðina sem stóðu árin 2009 og 2010. Þarna var tekin ákvörðun af aðilum vinnumarkaðarins og ríkisstjórn samþykkti að fara í þær framkvæmdir í nafni þess að skapa líka vinnu og auka hagvöxt o.s.frv., en ég vil leggja mikla áherslu á grundvallaratriðið, að auðvitað spiluðu þar fyrst og fremst umferðaröryggismál inn í. Á höfuðborgarsvæðinu átti að fara sums staðar í 2+1 veg og annars staðar 2+2 en aðalatriðið var að aðgreina akstursstefnur. Þetta vil ég láta koma fram.

Viðræðurnar stóðu árin 2009 og 2010 og þetta voru mikil og góð áform. Upp úr viðræðunum slitnaði í desember 2010, þá slitum við fulltrúar ríkisins viðræðum eftir að ég hætti í ríkisstjórn sem samgönguráðherra, en þá bað hæstv. forsætisráðherra mig og hæstv. innanríkisráðherra að halda viðræðum áfram og þeirri vinnu, sem ég og gerði.

Það slitnaði sem sagt upp úr viðræðum í desember 2010 af því að okkur, fulltrúum ríkisins, fannst lífeyrissjóðirnir fara fram á allt of háa ávöxtun hvað það varðaði sem þá var. Samþykkt var þó í ríkisstjórn 10. desember 2010 og tilkynnt með fréttamönnum að ríkissjóður ætlaði samt sem áður að halda áfram og fara í þetta verkefni. Í heimildargrein í fjárlögum 2010 var sett, sem var samþykkt, sú upphæð sem þá mátti vera samkvæmt reglum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, 6 milljarðar kr., fyrir bæði þessi verkefni eins og við kölluðum þau, bæði hlutafélögin. Það var sem sagt samþykkt og áfram var unnið, af mér sem stýrði þessum viðræðum, eftir því plani og ákvörðun ríkisstjórnar. Það leiddi meðal annars til þess að haldnir voru fundir, bæði hér sunnan lands með sveitarstjórnarmönnum og þingmönnum Suðurkjördæmis og fyrir norðan með aðilum sem koma að félaginu sem hét Greið leið, félagi sem hóf umræðu um Vaðlaheiðargöng fyrir sennilega sjö, átta árum. Þar mætti hæstv. innanríkisráðherra og við fórum yfir þessi mál öllsömul og skipst var á skoðunum, málið rætt og kynnt. Málið gagnvart Vaðlaheiðargöngum fékk áframhaldandi mjög jákvæðar viðtökur hjá þeim sem sátu fundinn, þ.e. fulltrúum heimamanna. Innanríkisráðherra orðaði það þannig í lokaræðu sinni að við skyldum ýta þessu fleyi úr vör og fara í að stofna félagið og halda áfram af fullum krafti hvað þetta varðaði. Og það var gert.

Ég tók að mér að sitja í stjórn þessa félags fyrir hönd ríkisins. Svona þokuðust málin áfram. Vegagerð og verkfræðistofur unnu að frekari hönnun og undirbúningi, félagið var stofnað, farið með verkið í forval og viðræður áttu sér stað við fjármálaráðuneytið um hvernig ætti að útfæra þennan fjármögnunarsamning á byggingartímanum sem leiddu til þess að skilmálaskrá var undirrituð á Akureyri milli fjármálaráðuneytis og Vaðlaheiðarganga hf. og verkið þar með komið á það stig að komið var að útboði. Og það var gert. Tilboð voru opnuð 11. október sl., fjögur eða fimm bárust, lægsta tilboð 95% af kostnaðaráætlun.

Þetta er ferlið, virðulegi forseti, sem rétt er að hafa í huga á hinu háa Alþingi. Að þessu hefur verið unnið samkvæmt samþykkt Alþingis og samþykkt ríkisstjórnar allt fram á þennan dag. Þess vegna er það sem fjármálaráðuneytið vill setja þetta inn í fjárauka, annars vegar gagnvart því sem þarf að greiða á þessu ári, sem auðvitað er fallinn kostnaður til sem er innan kostnaðaráætlunar verksins og svo þá væntanlega fyrirframgreiðslu, held ég að það heiti, til verktakans þegar skrifað verður undir samning.

Virðulegi forseti. Hins vegar hafa aðilar í þjóðfélaginu haft ímugust á þessu verki alveg frá byrjun. Ég hika ekki við að segja að þar fari fremst í flokki Félag íslenskra bifreiðaeigenda. Félag íslenskra bifreiðaeigenda á að sjálfsögðu að hafa skoðanir á samgöngumálum en það sem ég hef gagnrýnt mest hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda er hvað það fer frjálslega með staðreyndir og upplýsingar, setur fram rangfærslur og er mjög ósanngjarnt í sinni helför gagnvart þessu verki sem ég hika ekki við að segja að eigi sér stað á vegum Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Framkvæmdastjóri þess og formaður líka hafa sagt að fyrrverandi samgönguráðherra, sá sem hér stendur, hafi ætlað að setja framkvæmdir í gang á suðvesturhorninu og taka þar há veggjöld til að greiða niður Vaðlaheiðargöng. Þetta eru rangtúlkanir. Ég veit ekki hvaða orð ég á að nota annað um það í ræðustól Alþingis á þeim málflutningi Félags íslenskra bifreiðaeigenda, sem er alveg með ólíkindum og er ekki annað hægt að segja en að áframhaldandi árásir þess félagsskapar séu á þetta verkefni.

Síðan hefur það gerst að sett var í gang undirskriftasöfnun til að mótmæla hugmyndum um vegtolla í ofanálag við ofurháa eldsneytis- og bifreiðaskatta og birt á heimasíðu FÍB mynd af gjaldtökuskýli og ég veit ekki hvað og hverju upp við Kollafjörð — ég hugleiddi að taka þátt í þeirri undirskriftasöfnun vegna þess að ég gat alveg gert það, þ.e. vegna ofanálags á háa eldsneytisskatta. En það var aldrei meiningin, enda sagði ég þegar ég flutti frumvarp um samgöngufyrirtækin, og eftir að hafa verið spurður út í það kerfi, með leyfi forseta:

„Ég hef sagt, virðulegi forseti, að ég tel að við eigum að taka upp besta kerfið sem verið er að hanna í Evrópu. Búið er að taka það í notkun í nokkrum löndum. Það verði rafræn innheimta í gegnum gervihnött.“ — Á framhaldið legg ég mikla áherslu. — „Þá falla öll önnur gjöld niður, eins og olíugjöld og bensíngjöld, og verður aðeins um eitt gjald að ræða. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, þetta eru hálfgerð notkunargjöld, notendagjöld eftir stað og stund.“

Virðulegi forseti. Það var ætlun okkar í samgönguráðuneytinu þá að þverpólitísk nefnd, sem var byrjuð að starfa óformlega yrði gerð formleg, og sem hefði það verkefni fyrir hönd allra flokka á Alþingi og hagsmunaaðila að búa til kerfi sem væri framtíðartekjuöflunarkerfi fyrir vegagerð og vegarekstur á Íslandi. Sagt var að við hefðum tíma til ársins 2015 og þar yrði að taka tillit til jafnræðis án tillits til orkugjafa; sanngirni, nýir tímar og ný framtíðarsjónarmið. Eitt framtíðarkerfi í stað olíugjalds, bensínskatts, litarolíu, gúmmígjalds og ýmissa annarra gjalda sem var verið að setja á.

Má ég minna á að við neyðumst til þess núna að setja olíugjald á steinolíu vegna þess að hún er gjaldfrjáls og af henni er ekki greitt. En þetta er staðreynd málsins og ég vil leyfa mér að segja á þeim mínútum sem ég á eftir að á vegum stjórnar Vaðlaheiðarganga hefur verið unnið að þessu að mínu mati á mjög faglegan hátt. Það hafa verið óháðir sérfræðingar og það er enn ein fullyrðing — ég óskaði eftir að hv. þm. Þór Saari yrði hér í salnum en hann sér það sér sennilega ekki fært — það hefur verið farið í gegnum þetta af óháðum aðilum. Þeir eru ekkert tengdir Vaðlaheiðargöngum og ég bendi á, virðulegi forseti, að þeir aðilar sem eru velþekktir ráðgjafar á sínu sviði leggja að sjálfsögðu nafn sitt og fyrirtækisins við þá útreikninga sem gerðir hafa verið. Við í stjórn Vaðlaheiðarganga höfum ekki haft neina ástæðu til að ætla að það væri eitthvað óljóst í þeim reiknireglum. Meira að segja biðum við með frekari útfærslu á lánasamningnum við ríkissjóð þar til að tilboðin voru opnuð vegna þess að við sögðum að ef við fengjum tilboð sem væru langt yfir kostnaðaráætlun, 10–20% yfir, yrði sennilega ekkert af verkinu. Þá þyrftum við ekki að vera búin með þá vinnu.

Síðan kom tilboðið, eins og ég sagði áðan, sem var gott og undir kostnaðaráætlun og þá var enn einu sinni farið inn í reiknilíkanið og þær breytur allar settar inn sem skipta miklu máli, sem er auðvitað fyrst og fremst stofnkostnaður, í öðru lagi vextir og í þriðja lagi umferðarmagn. Vextirnir eru orðnir þekktir í samtölum og í samningnum við fjármálaráðuneytið og umferðarspáin hefur verið færð niður miðað við það sem er í dag, en sú spá er mjög varfærin. Þar er til dæmis ekki gert ráð fyrir framkvæmdum sem eru að hefjast á norðausturhorninu, bæði við mikla orkuöflun og uppbyggingu iðnfyrirtækja á Bakka við Húsavík.

Þetta hefur verið unnið eftir bestu getu og af færum mönnum og sett inn sem sýnir það einfaldlega að þetta verkefni er eins og til var ætlast, á að vera þannig að veggjöld standi undir afborgunum og vöxtum, framkvæmd og kostnaði.

Í reiknilíkani okkar höfum við sett fram sem nokkurs konar hámark 1 þús. kr. fyrir einstaka ferð sem þýddi þá í kringum 850–870 kr. með afslætti. Við getum líka, virðulegi forseti, sett inn í reiknilíkanið að ef við segjum að við borgum þessi göng til baka á 30 árum eða 35 árum, hvaða veggjöld þyrftu þá að vera? Þá væri það lægra. Það má auðvitað spyrja sig að því hvað við eigum að borga upp 11 milljarða kr. framkvæmdir við jarðgöng á mörgum árum. Þetta mannvirki mun standa í 100–150 ár og verða notað að lágmarki, ef ekki endalaust. Þá er eðlilegt að spyrja: Eigum við að borga slíkt verkefni upp á 30 árum eða 35, eða 25 árum? Fram hefur komið í útreikningum okkar að breytist eitthvað í forsendum, t.d. minni umferð, eða komi til einhver aukakostnaður á framkvæmdartíma, sem enginn getur auðvitað sagt til um að verði ekki — ég minni á að 5% er komið undir kostnaðaráætlun og það er töluvert há upphæð þótt FÍB geri lítið úr þeirri tölu — í óvissu í kostnaðaráætluninni sem Vegagerðin og verkfræðingar úti í bæ hafa gert. Þá hafa menn einfaldlega sagt: Þá verður það bara þannig að vegfarendur þurfa að borga veggjald lengur, í fleiri ár, ef þess þarf. Þá verður einfaldlega lengt í lánum.

Þetta vildi ég láta koma fram, en ég ítreka það sem ég sagði áðan, mér finnst alveg með ólíkindum sú herferð sem FÍB er í gagnvart þessu verki og sem ég tek eftir að nokkrir alþingismenn, sama hvort þeir sitja í umhverfis- og samgöngunefnd eða fjárlaganefnd eða annars staðar eða ekki í neinum nefndum, sem er nú reyndar enginn, að þá er hlaupið til og teknir inn hlutir frá FÍB sem eru rangtúlkanir og árásir þeirra á það verk sem ég hef gert hér að umtalsefni. Það er sorglegt til þess að vita að Félag íslenskra bifreiðaeigenda, sem gefur sig út fyrir að vera annt um umferðaröryggi á landinu, skuli hafa farið í herferð gegn því mesta umferðaröryggisátaki sem nokkurn tímann hefur verið undirbúið á Íslandi. Því hefur tekist með aðstoð annarra að drepa þær hugmyndir sem áttu að vera á suðvesturhorninu og er í þessari herferð og linnir sennilega ekki látum fyrr en það er búið að koma í veg fyrir framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng líka.

Í því sambandi er kannski rétt að geta þess sem er í umræðunni í dag. Gagnrýni kemur fram meðal annars frá FÍB um að Vegagerðin ætli sér að spara 10 millj. kr. á ári með því að slökkva á öðrum hverjum ljósastaur á Reykjanesbrautinni. Þetta eru ummæli sem koma fram frá FÍB og eru í gögnum, sem ég sá í fyrsta skipti fyrir tíu mínútum, sem félagið sendi til umhverfis- og samgöngunefndar. Ég má til með að geta þess að formaður og varaformaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda gengu á minn fund í samgönguráðuneytinu fyrir nokkrum mánuðum eða árum, í mesta lagi tveimur árum, og hvað voru þeir þá að ræða? Þeir lögðu fyrir mig tillögur um að rétt væri að slökkva á öllum ljósastaurum á Reykjanesbrautinni og taka staurana niður. Það voru tillögur FÍB í umferðaröryggismálum á Reykjanesbrautinni. Þeir lögðu til að slökkt yrði á öllum ljósastaurunum. Nú koma þeir og gagnrýna Vegagerðina fyrir að ætla að leggja þetta til.

Virðulegi forseti. Það var líka á vegum FÍB sem sagt var af formanni FÍB, með leyfi forseta, þar sem rætt var um hvort vegir ættu að vera 2+1 eða 2+2:

„Mitt mat er að Suðurlandsveg eigi að tvöfalda alla leið til Selfoss enda eru aðrar lausnir samanber 2+1 aðeins skammtímalausn.“

Það var formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda sem sagði þetta.

„Rök um að ódýrara sé að leggja 2+1 veg eiga einfaldlega ekki við um fjölfarna vegi eins og Suðurlandsveg.“

Þetta sagði stjórnarformaður FÍB (Forseti hringir.) í janúar 2006. Geta menn aðeins rifjað það upp, (Forseti hringir.) af því að ræðutími minn er búinn, hvað FÍB segir í dag um framkvæmdir á Suðurlandsvegi?