140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:58]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þá hlýtur hv. þingmaður líka að gleðjast yfir þeim möguleika sem við höfum nú á endurfjármögnun á óhagkvæmum lánum vegna Hörpu. Verið er að bera saman epli og appelsínur þegar talað er um fjármögnun nýframkvæmda annars vegar og hins vegar endurfjármögnun eins og þar er um að ræða. Það er lán, 700 millj. kr. lán, 400 frá ríkinu, 300 frá borginni með 5% vöxtum og 20 punkta álagi. Það er bara allt annað mál en hitt sem hv. þingmaður ber svo saman.

Hitt málið, skuldaskilin við Reykjanesbæ, uppgjör á skattaskuldum sem Reykjanesbær réð ekki við að borga, 900 millj. kr. Ríkið gat jú auðvitað bara farið með það í innheimtuaðgerðir en það var líka hægt að semja um það. Það var það sem ríkið gerði og samningurinn er hér á borðum. Þetta er 1.230 millj. kr. eign sem er tekjuskapandi inn í framtíðina sem ríkið fær í stað þeirra 900 milljóna sem Reykjanesbær skuldar klárlega. Það er líka mjög hagkvæmt og allt annað mál en nýframkvæmdir í vegagerð sem standa eiga undir sér sjálfar og borga á með veggjöldum.

Svo það verði ekki misskilið vil ég að taka fram að ég styð vegagerð og umbætur í samgöngumálum alls staðar á landinu og ég hef alltaf stutt alla jarðgangagerð. Meira að segja voru hin óvinsælu Héðinsfjarðargöng mér metnaðarmál. Ég tel að við eigum að gera miklu meira af því að búa til örugga vegi og bora okkur í gegnum fjöll hér á landi. Það er mitt mat og ég styð hv. þingmann og alla aðra góða menn í því vegna þess að þó að ég búi ekki öðrum hvorum megin við Vaðlaheiðargöngin tilvonandi (Gripið fram í.) hlakka ég til að ferðast um þau. (Gripið fram í.)