140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:00]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum ekkert ósammála um eitt eða neitt í því sem sett er fram. (ÁI: … allra landsmanna.) Að sjálfsögðu. Hér hefur verið rætt um nokkuð sem heitir framkvæmdalán til Hörpu og nú er Harpa tilbúin og þá á að fara í framtíðarútboð og endurfjármögnun á óhagkvæmum lánum, endurfjármögnun á öllu verkinu og hafa það kannski til 30 eða 40 ára.

Það hljómar kunnuglega fyrir mér, mér finnst það vera eitthvað svipað og annað verkefni sem við ræðum hér en eru miklu meiri deilur um. (ÞSa: Vaðlaheiðargöng.) Hárrétt, hv. þm. Þór Saari grípur hér fram í og brosir breitt, Vaðlaheiðargöng, akkúrat. (ÞSa: Akkúrat.) Þar er sama leið farin.

Ríkissjóður og Reykjavíkurborg leggja fram framkvæmdalán vegna Hörpu á byggingartímanum. Svo er verkinu lokið og þá liggur kostnaður fyrir. Þá er farið í framtíðarfjármögnun, útboð, sem íslensku lífeyrissjóðirnir kaupa vonandi hlut í og það verða arðbær kaup sem standa undir sér og styrkja lífeyrissjóðakerfið. Við borgum svo Hörpu upp á 35 eða 40 árum. Ég hygg nefnilega að lengst hafi í þeim tíma sem við höfum til að borga upp Hörpu vegna þess að verkið er dýrara m.a. út af hruni og öðru slíku. Kannski hefur eitthvað bæst við, ég veit það ekki. (Gripið fram í.)

En þetta er sama aðferð, virðulegi forseti, og verið er að tala um varðandi Vaðlaheiðargöng. Hv. þingmaður upplýsti mig um það sem ég vissi ekki áður, að talað er um ákveðin vaxtakjör á láninu og álag ofan á það fyrir ríkissjóð, sem er sennilega nákvæmlega sama tala og er í samningnum sem gerður var við fjármálaráðuneytið um framkvæmdalánið vegna Vaðlaheiðarganga.

Varðandi kaupin á orkulindunum á Reykjanesi andmæli ég því ekki, ég tók það bara sem dæmi um (Forseti hringir.) að ekki er eins farið með öll þessi verk. Þegar ég fæ frekari upplýsingar um það verð ég ábyggilega jafnhlynntur því og ýmsum málum (Forseti hringir.) sem fram koma og eru umræðuefni.