140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrðist hv. þingmaður segja að eftir á að hyggja hafi verið gott að sjónarmið hans fékk ekki ráða um framkvæmdir við Hörpu og ekki farið eftir því sem hann vildi, að láta hana standa ókláraða sem minnisvarða um ruglið. Og hann sé núna hinn kátasti með það að Harpa sé byggð og hafi verið byggð upp fyrir lánsfé (ÞSa: Ekki mjög kátur.) og nú sé þetta búið og nú þurfum við að loka reikningunum og endurfjármagna. (Gripið fram í: Það er ekki búið.) Mér finnst þetta athyglisvert. Það skyldi þó ekki vera að hv. þingmaður eigi kannski eftir að koma hingað upp einhvern tíma síðar og fagna því að hann hafi líka haft á röngu að standa um Vaðlaheiðargöng?

Ég vil spyrja hv. þingmann sem jafnframt er hagfræðingur: Er það ekki bara nokkuð góð hagfræði að við vinnum eftir því að ríkið eigi að koma inn og framkvæma á samdráttartímum, á meðan aðrir gera það ekki, og haldi að sér höndum á þenslutímum hvað varðar uppbyggingu og fari þá út af markaðnum? Má ekki eiginlega segja að þetta sé hagfræði 101?

Hv. þingmaður sagði að til væri tekjuáætlun fyrir Hörpu, sem felst í framlögum frá Reykjavíkurborg og ríkinu næstu 35–40 ár, um það bil 450 millj. kr. frá ríkinu á hverju einasta ári í 40 ár. En það er til tekjuáætlun, herra forseti, fyrir Vaðlaheiðargöng og hún er að sjálfsögðu í reiknilíkaninu. Af hverju í ósköpunum bað ekki umhverfis- og samgöngunefnd eða fjárlaganefnd, sem hv. þingmaður situr í, stjórn Vaðlaheiðarganga að koma á eðlilegan fund með þeim nefndum til að sýna reiknilíkanið líkt og við gerðum, að okkar frumkvæði, með FÍB á föstudaginn var?

Virðulegi forseti. Má ég geta þess að stjórn Vaðlaheiðarganga fékk síðdegis á sunnudag óskir um að senda inn gögn til umhverfis- og samgöngunefndar? (Forseti hringir.) Það var ekki fyrr en þá. Það stendur ekkert á stjórn Vaðlaheiðarganga að koma með (Forseti hringir.) reiknilíkanið og sýna nefndunum útreikningana, eins og hverjum öðrum (Forseti hringir.) vegna þess að þeir eru ekkert leyndarmál.