140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:08]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. (Gripið fram í: Lofa.) Já, því má lofa með jólasveininn, að það verði ekki jólasveinamynd í jarðgöngunum þegar hv. þingmaður keyrir í gegn. Ég held að við ættum bara að stefna að því, ég og hv. þingmaður, að keyra saman 1. ágúst 2015 í gegnum Vaðlaheiðargöngin, svona þegar fyrirmennin verða búin að keyra á undan okkur.

Það sem ég hef gagnrýnt mest, virðulegi forseti, meðal annars í málflutningi hv. þm. Þórs Saaris og FÍB sem ég gagnrýndi mjög harkalega áðan og mér þykir leitt að þurfa að gera en þegar haldið er fram svona vitlausum fullyrðingum og rökum og beinlínis rangfærslum er engu að síður ekki annað hægt en að taka til varna. Ég gerði það að umtalsefni áðan og skal gera það einu sinni enn, að forsvarsmenn FÍB voguðu sér að segja að ætlun mín sem samgönguráðherra og þáverandi samgönguyfirvalda og ríkisstjórnar hefði verið að fara í framkvæmdir á suðvesturhorninu og rukka síðan há veggjöld á þremur vegum þar til að greiða niður framkvæmdina við Vaðlaheiðargöng í kjördæmi ráðherrans, eins og sagt var. Þetta er svakalega smekklegt eða hitt þó heldur. Það var aldrei meiningin og hefur aldrei verið, enda standa lögin fyrir sínu, verkið skal endurgreiðast með veggjöldum, það er skýrt í lögunum sem ég mælti hér fyrir og Alþingi samþykkti með 43 atkvæðum og enginn var á móti. Enginn var á móti en nokkrir sátu hjá, þar á meðal þingmenn Hreyfingarinnar sem tóku ekki afstöðu í þessu máli frekar en ýmsum öðrum.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að við eigum að hætta þessu karpi um þetta verk. (Gripið fram í: Þú byrjaðir.) Nei, virðulegi forseti, það er nú ekki þannig. Ég hóf ekki þennan leik og ég segi leik. Og ég held að við séum í síðasta þættinum í þessu leikriti og því fari vonandi að ljúka. Ég minni bara á það sem ég hef áður sagt, ég var fenginn til þess af hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) og nokkrum ráðherrum að fylgja þessu máli eftir (Forseti hringir.) og ég ætla að gera það. En ég viðurkenni það að ég gerði vitleysu með því að fallast á að sitja í (Forseti hringir.) stjórn fyrirtækisins vegna þess að ég hef t.d. ekki getað sótt nefndarfundi (Forseti hringir.) sem ég hefði gjarnan viljað gera út af þessu verki.