140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér álit frá hv. fjárlaganefnd um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2011. Í sjálfu sér gleðst ég yfir því að þetta er tiltölulega snemma á ferðinni. Ég hefði hins vegar viljað sjá fjáraukalögin fleiri. Ég flutti fjáraukalög í kjölfar kjarasamninga í vor þegar fyrir lá hvað þeir mundu kosta í lífeyrisgreiðslum. Mér finnst sjálfsagt að fjáraukalögin séu oft á ári og taki á þeim atburðum og uppákomum sem orðið hafa, í kjölfar samninga, í kjölfar lagasetningar, eldgosa eða annars slíks, sem breyta fjárlögum. Fjárlög eru spá um afkomu ríkissjóðs næsta ár og líka ákveðin viljayfirlýsing. Fjárlög eiga að standa nema eitthvað óvænt komi upp á sem menn reiknuðu ekki með. Fjárlögin eru spá, síðan gerist eitthvað óvænt og á því eiga fjáraukalög að taka. Ég mundi gjarnan vilja að fjáraukalögin kæmu bara eftir hendinni þegar eitthvað hefur gerst þannig að menn sæju strax hver staðan væri, í kjölfarið kæmi svo ríkisreikningur og ekki allt of seint.

Hvers vegna erum við yfirleitt með fjárlög? Það er til að skattgreiðendur geti áttað sig á skuldbindingum sínum. Hvað skulda ég? Hvað bíður mín? Börnin mín, hvað eiga þau að borga o.s.frv.? Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir, í 41. gr:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Þegar talað er um gjald má það ekki vera algjörlega ótakmarkað, það þarf að vera einhver upphæð. Það finnst mér en greinilega ekki öllum. Það er vaxandi tíska, sem ég man fyrst eftir þegar Hörpu var laumað inn í heimildargrein, grein sem mér yfirsást — það voru mikil mistök hjá mér, mér yfirsást pínulítil heimildargrein í fjárlögum um að fjármálaráðherra væri heimilt að gera samning við Portus og sagði mér ekki nokkurn skapaðan hlut. Allt í einu horfi ég þar upp á 35 milljarða dæmi, 27 milljarða er það bókfært á, og skuldbindingu upp á 500 milljónir í 35 ár fyrir ríkissjóð. Þetta er hvergi nokkurs staðar í fjárlögum. Þessi upphæð, 500 eða 600 milljónir, ég veit ekki hvað þetta er komið upp í, í 35 ár, er hvergi. Þetta er í raun lántaka, herra forseti. Ríkissjóður er að taka lán, hann lofar að borga þetta. Fjármálaráðherra framtíðarinnar getur ekkert hætt við þetta og sagt: Ég á ekki aur, ég ætla að skera þetta niður, hann getur það ekki. Þetta er skuldbinding. Nú vantar þá pening og þeir segja að staðan á lánamörkuðum, til endurfjármögnunar, sé slæm þannig að nú á ríkissjóður að hlaupa undir bagga með einhver hundruð milljóna, reyndar til skamms tíma en engu að síður er þetta til viðbótar því sem menn höfðu áætlað.

Þessar heimildargreinar eru að mínu mati ákveðin tilraun til að plata skattgreiðendur og sérstaklega skattgreiðendur framtíðarinnar. Það er viðbúið að þeir sem tóku ákvörðun um Hörpu borgi ekki í 35 ár, alla vega ekki allir, þessar greiðslur. Það verða börnin okkar sem greiða það á endanum. Fyrir utan það hef ég ekki enn séð neina áætlun um hvernig menn ætla að reka þetta dót. Það vantar algjörlega. En samkvæmt lögum um opinberar framkvæmdir á áætlun um rekstur að liggja fyrir.

Þetta er fyrsta dæmið um feluleik af þessu tagi og hann færist í vöxt og það er mjög slæmt. Það minnir mig dálítið á stöðuna í Grikklandi, ég verð að segja eins og er. Þegar ég keyri fram hjá Hörpu — ég velti því um leið fyrir mér hvort hún er falleg eða ekki, ég sé það ekki alveg, er ekki alveg búinn að átta mig á því enn hvort hún er falleg, en alla vega er hún dýr. Það setur að mér óhug þegar ég keyri þarna fram hjá vegna þeirra gífurlegu skuldbindinga sem liggja í þessu húsi. Ef allt gengur vel, ef þarna verður reist fimm stjörnu hótel og hingað streyma moldríkir erlendir ferðamenn sem hafa gaman af að hlusta á óperur á kvöldin, drekka rauðvín og borga mikla peninga fyrir, getur vel verið að þetta gangi upp, ég er ekkert að útiloka það. En mér finnst að skattgreiðandinn á Íslandi eigi ekki að taka svona áhættu, hann eigi ekki að gera það, það er bara mitt sjónarmið.

Í vaxandi mæli sjáum við dæmi af þessu tagi út um allt. Þegar ný ríkisstjórn tók við áttum við von á að hér yrði allt gegnsætt og bjart, siðlegt og fínt, en svo var allt í einu komið lán til Saga Capital — 19 milljarðar með 2% vöxtum og verðtryggingu las ég einhvers staðar. Ég hugsaði: Ja, margt heimilið hefði nú gott af að fá svona lán til svona langs tíma. Svo fór að Saga Capital breytti sér í Hilda og svo allt í einu var Saga Capital farið, ég veit ekkert hvað varð um þessa 19 milljarða. Þeir voru sennilega ástarbréf frá Seðlabankanum sem var kannski ekki mikils virði, en mér fannst það fyrsta stílbrotið hjá núverandi ríkisstjórn að hafa ekki staðið í lappirnar þarna og alla vega lækkað hlutaféð þegar þeir lánuðu þessi ósköp.

Síðan gerist það að LSH er komið á fulla ferð. Þar er komið fullt af fólki sem vinnur við að hanna þetta hús o.s.frv. Ég var í heimsókn þar í vikunni og aftur setti að mér ákveðinn óhug af því þar á þetta að greiðast með hagræðingu. Ég man eftir því — ég man allt of mikið úr fortíðinni og kannski hef ég upplifað of margt — þegar Landspítalinn og Borgarspítalinn voru sameinaðir og gífurlegur hagnaður átti að koma út úr því. Ég horfði síðan á það ár eftir ár í kjölfarið að alltaf var farið fram úr fjárlögum með rekstur þessa sameiginlega spítala sem heitir Landspítali – háskólasjúkrahús, legg sérstaka áherslu á háskólaheitið. Þessi spítali fór alltaf fram úr fjárlögum þrátt fyrir sameininguna. Ég gat aldrei séð hvar sameiningin var. Og framúrkeyrslurnar voru afskrifaðar trekk í trekk með neyðarfundum og aftur var farið fram úr, aftur var afskrifað o.s.frv. En nú er nýr maður kominn við stýrið sem hefur farið að fjárlögum, merkilegt nokk, sýnist mér. Það er mikil breyting og hamingja fyrir fjármálaráðherra að hafa slíka menn, því að þetta voru mjög háar upphæðir sem háskólasjúkrahúsið eyddi um fram fjárlög.

Mörg önnur dæmi eru að koma í ljós. Ítarlega hefur verið rætt um Sparisjóð Keflavíkur. Ég ætla ekkert að fara nánar út í það, nema að þar er aftur einhver skuldbinding sem hlóðst upp á einhverjum tíma. Ég er búinn að spyrjast fyrir um hvernig innstæðurnar uxu í þessum bönkum. Ég man eftir því að S-24 — ég held það hafi heyrt undir hann þó að ég sé ekki alveg viss um það, þetta eru svo mörg ný nöfn — bauð mjög góða vexti, það var mikil eftirspurn eftir að leggja þar inn. Voru þessir bankar sem voru að fara á hausinn — og Fjármálaeftirlitið vissi það alla vega og hæstv. fjármálaráðherra átti að vita það — að sanka að sér innstæðum á sama tíma og þeir voru að sigla í þrot? Þeir voru að auka skuldbindingu ríkissjóðs, því að fjármálaráðherra lítur þannig á að ábyrgð sé á innstæðum, alla vega hefur hann lofað ábyrgð á innstæðum, en það er að sjálfsögðu engin ríkisábyrgð á innstæðum því að það þarf að vera í fjárlögum og fjáraukalögum, samkvæmt títtnefndri 41. gr. Voru þeir að safna innstæðum sem juku skuldbindinguna þannig að hún var allt í einu komin upp í 10,2 milljarða?

Svo eru menn að fara aftur í gang. Vaðlaheiðargöngin eru dæmi um það. Mér finnst það einkenni á öllum þessum framkvæmdum, herra forseti, að það dettur allt í einu eitthvað af himnum ofan og það er enginn sem borgar. Þetta er þannig. Harpa, hún dettur að himnum ofan, stendur þarna allt í einu svakalega glæsileg, hún var opnuð ég veit ekki hve oft, ég var ekki viðstaddur neina þeirra — hún bara stendur þarna og mörgum finnst hún glæsileg og enginn á að borga. Það er alla vega ekki nefnt í fjáraukalögum eða neins staðar.

Það á líka að fara að byggja fangelsi. Það á líka að detta af himnum ofan og enginn á að borga það. Háskólasjúkrahúsið, það á enginn að borga það, það á bara að borgast með rekstrarhagræðingu í framtíðinni. Vaðlaheiðargöngin eiga að greiðast með veggjöldum og gert er ráð fyrir að 90% af þeim sem fara þarna um vilji borga þúsund kall og keyra í gegnum dimm göng í staðinn fyrir að keyra í sólinni. Mér finnst þetta ekki vera nógu gott. Menn eru að lofa of miklu inn í framtíðina.

Ég er í nefnd um endurskoðun almannatrygginga. Þar ætla menn — ég held að það sé ekkert leyndarmál — að koma með nýja hugmynd, hún á kosta 2,3 milljarða, herra forseti, en árið 2013. Lífeyrisþegar eiga að japla á loforðunum þangað til og 2013 á hún að kosta 2,3 milljarða fyrir þann fjármálaráðherra sem þá situr. Ég kann ekki að meta svona. Það er alltaf verið að lofa inn í framtíðina. Það er alltaf verið að horfa á litlu börnin okkar og segja: Getur þú ekki borgað, vinurinn? Það er þannig. Það eru litlu börnin sem eiga að borga einhvern tímann í framtíðinni. Mér finnst þetta vera ósiðlegt. Ég vil að menn fari að hætta þessu — bara hreinlega hætta að koma með heimildir í 4. gr. þar sem stendur ósköp lítið og nett, í grein 7.18, með leyfi herra forseta:

„Að ganga frá uppgjöri og greiðslu til Landsbankans hf. vegna mismunar á eignum og innstæðuskuldbindingum SpKef sparisjóðs á grundvelli endanlegs eignamats í tengslum við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 5. mars 2011, um samruna SpKef sparisjóðs og Landsbankans hf., sbr. samning um yfirtökuna milli íslenska ríkisins og Landsbankans hf. frá sama degi.“

Þarna er einhver setning og ekki ein einasta krónutala í henni og samt heita þetta fjárlög. Ég veit ekkert hvað er á bak við þetta. Eru þetta 10,2 milljarðar, eru þetta 15 milljarðar, eru þetta 8 milljarðar? Hvað er á bak við þetta eiginlega? Maður veit það ekki. Mér sýnist að fjárlaganefnd viti það ekki heldur. Við þurfum að taka burtu þessa 4. gr. um heimildir. Jú, kannski er í lagi að selja fasteignir, Hrauntungu við Álftanesveg í Garðabæ, það er í lagi mín vegna að selja eignir, þá kemur peningur inn í ríkissjóð. En að vera að gera samninga sem skuldbinda ríkissjóð, það á ekki að vera í heimildum. Ég skora á hv. formann fjárlaganefndar að hætta að vera með opnar heimildir. Við erum ekki að tala um upphæðir fyrir karamellum, þetta eru alveg gífurlegar fjárhæðir. Ég minni á að einn milljarður er um það bil 200 árslaun Íslendings, einn milljarður er gífurleg upphæð.

Ég vil að allar tölur standi í fjárlögum og menn horfist í augu við hlutina. Ef menn ætla að byggja fangelsi þá á að standa í fjárlögum hvað það kostar. Ef menn ætla að byggja spítala upp á 33 milljarða á það að standa í fjárlögum, ekki vera að fela það. Ef menn ætla að byggja Vaðlaheiðargöng — sem ég er mjög ánægður með, herra forseti, ég sat einu sinni fastur í Víkurskarði um nótt um vetur, það var ekkert sérstaklega ánægjulegt, þá hefði ég gjarnan viljað hafa þessi Vaðlaheiðargöng, ég hefði jafnvel borgað þúsund kall fyrir það. En það er ekki nógu sniðugt að vera að fela þetta svona. Það á bara að standa: Vaðlaheiðargöng, 10 milljarðar, skuldbinding á ríkissjóð. Punktur. Það á ekki að vera að fela það, annars getum við lent í sömu stöðu og Grikkir. Mig langar ekkert voðalega mikið til þess, herra forseti.

Ég ætla rétt aðeins að ljúka þessu með því að fara í gegnum kjarasamningana. Það kemur reyndar hvergi greinilega fram í þessu fjáraukalagafrumvarpi hvaða áhrif þeir hafa á ríkissjóð, en ljóst er að 50 þús. kallinn hafði — ég ætlaði nú reyndar alltaf að reikna það út, ég er ekki búinn að því, en í fyrsta lagi er borgað tryggingagjald, 8% af þessum 50 þús. kalli, það er 4 þús. kall, síðan er borgað í lífeyrissjóð o.s.frv. — fyrirtækin hafa þurft að borga um það bil 60 þús. kall fyrir þennan 50 þús. kall. Launþegi borgar svo um þriðjunginn af þessu, svona 17 þús. kall, þannig að það má segja að launþeginn haldi eftir helmingnum af því sem fyrirtækin greiða í þennan 50 þús. kall. Og hver heldur restinni? Að mestu leyti hæstv. fjármálaráðherra, ríkissjóður, og svo lífeyrissjóðirnir og aðrir slíkir. Skattlagningin er nefnilega orðin alveg gífurlega mikil. Þess vegna sýnist mér þessir kjarasamningar hafa svona 6–10 milljarða jákvæð áhrif á fjáraukalög, en mínus 5,5 milljarða áhrif á lífeyrisbætur. Þegar dæmið er gert upp hefði ríkissjóður grætt á kjarasamningunum. Það er svo merkilegt að ríkissjóður græðir því meir á kjarasamningum sem þeir eru óraunhæfari og óraunsærri. Svo kemur verðbólga á eftir og það eykur skuldbindingu heimilanna og ég hugsa að ríkissjóður græði á því líka, af því að þá fær hann meiri tekjur næsta ár. Kjarasamningar af þessu tagi geta komið mjög undarlega út fyrir alla aðra en launþegana sem sjá minnst af því sem um er samið.

Í þessu frumvarpi til fjáraukalaga er of mikið af óljósum skuldbindingum. Ég vil að í fjárlögum og fjáraukalögum sé upphæð tilgreind, í krónum og aurum. Ég vil að þau séu í samræmi við 41. gr. stjórnarskrárinnar. Ég velti því fyrir mér hvað gerist, samkvæmt svona óljósri grein eins og heimildargreininni, með þann mann sem skrifar út tékkann, hvort sem það er ríkisféhirðir eða hver sem hann er, á grundvelli óljósrar heimildar. Hvað er hann eiginlega að gera? Þegar stendur í 41. gr., með leyfi herra forseta:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Hvað gerist með þann mann sem greiðir út þessa upphæð, segjum 10 milljarða, til Landsbankans, vegna SpKef? Eða hvað gerist með þann hæstv. fjármálaráðherra sem gefur skipun um að slíkt skuli gert? Hvað er eiginlega að gerast? Ég get ekki séð að þetta sé í samræmi við stjórnarskrá.