140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[17:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu fyrir hana, málefnalega og ágæta umræðu um þetta frumvarp til fjáraukalaga sem hér er til 2. umr. Ég fagna líka tímanlegri afgreiðslu á fjáraukalagafrumvarpinu, sem ég held að sé hluti af framför í þessum efnum, að það fái eins tímanlega afgreiðslu innan almanaksársins og mögulegt er þannig að ráðuneyti geti á grundvelli nýrra fjárheimilda, eða breyttra, notað það sem eftir lifir ársins til að ganga út frá í störfum sínum.

Ég vil að sjálfsögðu líka þakka fjárlaganefnd fyrir gott samstarf um málið og vinnu hennar. Ég tek undir það með formanni fjárlaganefndar að enn er verk að vinna í því að bæta umgjörðina utan um tilurð fjárlaga, undirbúninginn og ýmislegt sem tengist framkvæmdinni líka og eftirfylgni en öllu miðar því þó, að mínu mati, í heldur rétta átt. Ég minni til að mynda á að lokafjárlög fyrir 2010 eru nú þegar komin til fjárlaganefndar, mun fyrr en áður hefur tekist og ef við náum að færa þetta ferli framar í tíma er það til mikilla bóta. Það liggur fyrir samkvæmt nýjum þingsköpum, ef ég veit rétt, að fjárlagafrumvarp mun þá koma fram um miðjan september á næsta ári og verður þar af leiðandi nokkuð fyrr á ferðinni, sem kallar aftur á að undirbúningurinn sé unninn tímanlegar, m.a. vegna sumarleyfa. Í raun þarf að vera komin mun skýrari mynd á meginútlínur fjárlaga fyrr á árinu en ella. Síðan þegar því verður við komið að færa þetta alla leið yfir í aðferðafræði rammafjárlagagerðar sem þingið komi þá að að samþykkja á fyrri hluta árs. Til þess þarf ýmsar breytingar, svo sem þær að breyta ákveðnum atriðum fjárreiðulaga sem vissulega er orðin þörf á að endurskoða hvort sem er, enda þau komin nokkuð til ára sinna, komin hátt á annan áratug í aldri. Æskilegt væri að ríkisreikningur gæti sömuleiðis legið fyrir sem fyrst á árinu fyrir undangengið ár þannig að hægt væri að taka mið af honum, og fleira mætti nefna. Ég vil láta þess getið að sérfræðingahópur á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ein af síðustu og kannski síðasta slík heimsóknin sem við fengum, er nýlega farinn af landi brott eftir að hafa verið hér í hálfan mánuð við að skoða einmitt þá þætti og væntanlega kemur skýrsla frá hópnum þar sem ýmsar ábendingar koma fram þar sem betrumbæta megi enn í þeim efnum hjá okkur.

Varðandi útkomuna á þessu í heild miðað við það sem hér er undir, breytingartillögur og fjáraukalagafrumvarpið sjálft, verð ég að segja að ég tel að við getum eftir atvikum mjög vel við það unað ef við náum að klára árið með vel innan við 50 milljarða halla, 46 milljarða eins og hér er lagt upp, í ljósi þess að innan ársins urðu umtalsverðar breytingar og þá fyrst og fremst með gerð kjarasamninga á öllum vinnumarkaðnum í síðastliðið vor sem höfðu í för með sér umtalsverð útgjaldaáhrif strax innan ársins. Það fór eiginlega betur en á horfðist þegar í byrjun var verið að reyna að meta áhrifin, að þau yrðu þyngri á útgjaldahliðina en minni á tekjuhliðina, en þegar upp er staðið vex þó hallinn ekki meira, þrátt fyrir þær breytingar og aðrar sem að langstærstum hluta eru beintengdar útgjaldaáhrifum kjarasamninganna, en svo að hann fer úr 37–38 milljörðum í 46. Það er eftir sem áður miklu betri útkoma en við höfum áður séð á þessum þrengingarárum og er ávísun upp á halla sem er í nágrenni við 2,8% af vergri landsframleiðslu og erum við þá auðvitað komin langan veg frá þeim 14,6% sem árið 2008 endaði í eða 10% ársins 2009.

Frávikið frá fjárlögum er sömuleiðis minna en við höfum séð á löngum árabilum að meðaltali eins og hér hefur verið farið yfir, bæði af formanni fjárlaganefndar og varaformanni. Það er tvímælalaust á réttri leið.

Það hefur verið nefnt hér og kemur fram í nefndaráliti minni hluta að auðvitað eru ákveðnir óvissuþættir enn uppi í þessu sem búast má við og tengjast eftirhreytum af bankahruninu. Þar hafa menn aðallega staldrað við eitt mál, skiljanlega, sem er spurningin um þann kostnað sem á endanum lendir á ríkinu vegna Sparisjóðs Keflavíkur vegna allsherjarábyrgðar ríkisins á öllum innstæðum í bönkum og sparisjóðum. Niðurstaða liggur ekki fyrir í því, það er ljóst að nokkuð mikið ber á milli mats annars vegar þess sem stuðst var við þegar ríkið tók á sínum tíma ákvörðun um að sameina sparisjóðinn Landsbankanum og hins vegar mats Landsbankans sjálfs á verðmæti þessa eignasafns. Það mál er í þeim farvegi að náist ekki um það samningar sem horfir kannski ekki vel með, samanber það hve mikið ber á milli, fer málið væntanlega í úrskurð þar til bærs aðila í samræmi við þann samning sem gerður var og þá fyrst liggur endanleg tala fyrir, en það verður auðvitað að gera ráð fyrir að hún liggi einhvers staðar innan þess bils sem er á milli mats málsaðila.

Þar er þó, sem betur fer, á ferðinni óreglulegur einskiptisliður og þeim fer nú vonandi fækkandi, áföllum af því tagi sem ríkið þarf enn að búa sig undir að geta þurft að taka á sig vegna eftirstöðva af bankahruninu. Ég geri mér góðar vonir um að það verði stærsti slíki liðurinn sem eftir sé varðandi endurreisn fjármálakerfisins sjálfs og að á komandi árum fari ríkið fremur að fá eitthvað af fjármunum sínum til baka sem það hefur lagt í endurreisn fjármálakerfisins en öfugt.

Í ljósi þess við hversu óvissar aðstæður fjárlagagerð og fjárlagasetning hefur verið undanfarin ár held ég að færa megi fyrir því sterk rök að árangurinn og það hversu nálægt hefur tekist að lenda fjárlögum hverju sinni hljóti að teljast mjög athyglisverður vegna þess að öllum er ljóst að miklum vandkvæðum hefur verið bundið að áætla í raun bæði útgjöld og tekjur við þær óvissu aðstæður sem við höfum búið við. Gangi þetta í grófum dráttum eftir sem hér er undir tel ég sömuleiðis að við getum vel við árið 2011 unað. Við erum tvímælalaust að ná gríðarlega stórum áföngum í að draga niður hallarekstur ríkissjóðs og stöðva skuldasöfnunina og það skyldi enginn vanmeta mikilvægi þess.

Náist niðurstaða á næsta ári sem verður í nágrenni við það sem fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp felur í sér, halla á heildarjöfnuði í nágrenni við 1% af vergri landsframleiðslu og umtalsverðan afgang á frumjöfnuði, mun það sömuleiðis teljast mjög marktækur árangur sem menn hafa þannig náð við erfiðar aðstæður.

Menn hafa rætt talsvert það sem er í breytingartillögum meiri hlutans og snýr að tiltekinni samgönguframkvæmd. Ég þarf í sjálfu sér ekki að blanda mér mikið í það. Ég minni bara á og árétta að það mál hefur lengi verið í undirbúningi, það hefur verið undirbúið í nánu samráði við Alþingi, Alþingi hefur sett lög um þær framkvæmdir og síðan hefur það ítrekað verið afgreitt á mismunandi stigum í ríkisstjórn í samræmi við framvindu málsins eins og hún hefur verið. Málið er því mjög vel valdað, bæði í formi lagaheimildar frá Alþingi og samþykkta í ríkisstjórn, og hefur verið farið með það nákvæmlega í anda þess sem var lagt upp með, að mjög freistandi væri og spennandi að ráðast í þá góðu framkvæmd ef forsendur væru til þess að gera það á sjálfbærum grunni, að samgöngumannvirkið stæði undir sér sjálft og borgaði sig upp með veggjöldum í fyllingu tímans.

Á því eru góðar horfur og nokkuð traustar forsendur eftir því sem hægt er, sérstaklega í ljósi þess að nú liggur fyrir tilboð í framkvæmdina. Framkvæmdakostnaður ætti því að liggja nokkuð vel fyrir eða eftir atvikum eins vel og hægt er þegar ráðist er í framkvæmd af þessu tagi.

Hún hefur lengi verið á listum stjórnvalda yfir fjárfestingu og framkvæmd sem æskilegt væri að reyna að ráðast í við þessar aðstæður en þó þannig að það bindi ekki fé ríkissjóðs og væri ekki ávísun á útgjöld og frekari skuldsetningu ríkissjóðs. Það að ríkið sé félaginu innan handar um fjármögnun á byggingartíma hefur að sjálfsögðu engin áhrif þar á því að þar er um að ræða lán til félagsins með veðum og kröfu á það og vaxtaálagi sem ríkið nýtur þá góðs af þannig að ríkið á ekki að verða fyrir neinum útgjöldum, nema síður sé, af þeim sökum.

Að sjálfsögðu er rétt og skylt að skoða allar slíkar forsendur vel áður en endanlega er gengið frá skuldbindandi gerningum og það verður gert og fjárlaganefnd, eins og hún hefur óskað eftir, upplýst um það mál þegar það er tímabært í framhaldi af þeirri umfjöllun sem um málið hefur verið núna að undanförnu í fjárlaganefnd og fleiri þingnefndum. Það stendur að sjálfsögðu ekkert annað til en að þetta mál verði unnið áfram með sama hætti og það hefur verið meðhöndlað hingað til í góðu samráði við viðkomandi aðila innan þings og utan.

Ég ætla ekki að orðlengja um þetta frekar, virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til fjárlaganefndar fyrir vinnu hennar og veit að við munum eiga gott samstarf áfram um þau verkefni önnur sem á okkar borðum eru og kalla á náið samstarf fjármálaráðuneytis, Alþingis og fjárlaganefndar og snýr þá bæði að afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins sjálfs og eins þess sem komið var inn á af formanni fjárlaganefndar og snýr að aðferðafræðinni og vinnu almennt við undirbúning fjárlagafrumvarpa, endurskoðun fjárreiðulaga og tengda hluti.