140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

239. mál
[17:32]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég verð þó að segja að ég tel að fara þurfi að flýta því að ákveðið verði með hvaða hætti þetta verði til framtíðar þó að réttindin séu að nálgast.

Ég er þeirrar skoðunar að mjög mikils virði sé að skoða hvort ekki sé ráðlegt að koma á einu lífeyriskerfi í landinu í stað þeirra tveggja sem við lifum við nú. Skýrsla bíður umræðu og umfjöllunar í hv. fjárlaganefnd um lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs sem hlaupa á hundruðum milljarða, eru allt á fjórða hundrað milljarða kr. Við vitum að í mörgum nágrannaríkjum okkar er hart tekist á um lífeyrismál. Þetta eru afskaplega viðkvæm pólitísk mál af því að þau varða, eins og ég sagði, grundvallarréttindi launafólks. Ég held að það sé til mikils unnið að koma á kerfi sem er skýrara þannig að fólk þekki réttindi sín. Nú er mjög algengt að fólk fari á milli hins almenna vinnumarkaðar og opinbers vinnumarkaðar og viti í raun og veru ekki almennilega hvaða réttindi bíða þess þegar að eftirlaunaaldri kemur.

Við eigum vinnu í vændum og auðvitað er hæstv. ráðherra byrjaður á þeirri vinnu og hún er eitthvað komin á veg. En ég held að við verðum að horfast í augu við margar óþægilegar spurningar sem við þurfum að svara og vera kann að hækka þurfi t.d. eftirlaunaaldur eða eitthvað slíkt án þess að ég ætli að spá fyrir um það.

Þarna er um umtalsverðar skuldbindingar að ræða og við verðum að vita með hvaða hætti (Forseti hringir.) við ætlum að bregðast við svo að ríkissjóður geti staðið undir þeim.