140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

aðför.

252. mál
[18:06]
Horfa

Flm. (Arndís Soffía Sigurðardóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um aðför, nr. 90/1989. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson, Lilja Mósesdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Þráinn Bertelsson.

1. gr. er svohljóðandi:

„Við 63. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Fjárnámi verður ekki lokið án árangurs hafi sýslumaður lokið gerð gagnvart sama gerðarþola án árangurs á síðustu þremur mánuðum.“

2. gr.:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á aðfararlögum á þann hátt að sýslumönnum verði ekki heimilt að ljúka gerð með árangurslausu fjárnámi ef sami gerðarþoli hefur, á síðustu þremur mánuðum, þurft að sæta árangurslausu fjárnámi fyrir annarri kröfu. Bannið sem ákvæðið felur í sér hefur ekki áhrif á fyrningarfrest krafna þar sem hann er rofinn við það tímamark þegar beiðni um fullnustu berst héraðsdómara eða sýslumanni, samanber 18. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007. Með breytingunni munu kröfuhafar ekki tapa réttindum sínum heldur er um að ræða frestun á fullnustu gerðar á meðan í gildi er árangurslaust fjárnám. Samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta m.a. ef fjárnám hefur verið gert hjá skuldara án árangurs að einhverju leyti eða öllu á síðustu þremur mánuðum fyrir frestdag.

Flutningsmenn telja því óþarft að fleiri kröfuhafar sækist eftir því að gera árangurslaust fjárnám hjá skuldara innan þessara þriggja mánaða. Í ljósi þess að gerðin telst óþörf samkvæmt lögum á þessu tímabili telja flutningsmenn að um sé að ræða ráðstöfun sem feli í sér óþarfakostnað fyrir gerðarbeiðanda og óþarfavinnu og -kostnað fyrir hið opinbera. Flutningsmenn telja óbreytt fyrirkomulag geta ýtt undir að innheimtuaðilar krafna krefjist gerða sem óþarft sé að framkvæma samkvæmt lögum í ljósi þess að þeir fái greitt fyrir hvert árangurslaust fjárnám. Þau miklu skuldaskil sem fara fram eftir efnahagshrunið 2008 mega ekki vera féþúfa innheimtuaðila. Með breytingunni kemur fram skýr vilji löggjafans til þess að kröfuhafar nýti árangurslaus fjárnám annarra kröfuhafa innan þriggja mánaða frá gerð þeirra til þess að krefjast gjaldþrotaskipta eða eftir atvikum að afskrifa kröfur sínar, hvort sem um er að ræða innheimtuaðila hins opinbera eða einkaaðila.

Á mannamáli og í hnotskurn þýðir þessi breyting á lögum um aðför að í stað þess að kröfuhöfum sé heimilt að nýta árangurslaus fjárnám annarra kröfuhafa til að óska eftir gjaldþrotaskiptum skuldara eða að afskrifa kröfu er beinlínis ekki gert ráð fyrir öðru en á þessu þriggja mánaða tímabili ætli kröfuhafi að óska gjaldþrotaskipta á búi skuldara eða afskrifa kröfu. Breytingin á að leiða til þess að sýslumenn þurfi ekki að annast óþarfa vinnu en þeir eru auðvitað undir miklu álagi undir þeirri niðurskurðarkröfu sem á þá hefur verið sett undanfarin ár. Gerðarbeiðendur þurfa ekki að greiða fyrir innheimtuaðgerð sem er óþörf og gerðarþoli þarf ekki ítrekað að mæta samkvæmt boðun til sýslumanns til þess að lýsa yfir eignaleysi sínu.

Að lokum legg ég til að málið hljóti málsmeðferð í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að lokinni umræðu.