140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

frumvarp um stjórn fiskveiða.

[15:05]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir spurninguna. Þessi mál eru á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þannig að þrátt fyrir það sem efnahags- og viðskiptaráðherra kann að láta frá sér fara í þeim efnum án þess að hafa borið það undir ráðherrann er málið á forræði sjávarútvegsráðherra.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það er búið að vinna mikla undirbúningsvinnu vegna þessa máls. Stefnuskrár flokkanna í þessum efnum liggja fyrir sem og samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarflokkanna. Þar liggur líka fyrir hvernig beri að hátta verklagi í erfiðum málum. Það liggur fyrir að það var skipuð svokölluð sáttanefnd, þ.e. nefnd sem var falið það hlutverk að skilgreina helstu álitaefni í fiskveiðistjórninni. Hún tók alllangan tíma og skilaði áliti sem lagði til ákveðna leið í þessum efnum. Síðan tók við samráð af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og þá vinnsla frumvarpsdraga og í lok þeirrar vinnu komu einir fjórir ráðherrar ríkisstjórnarinnar að lokavinnu að því frumvarpi sem síðan var lagt fram og fór svo í gegnum þingflokka og fyrir Alþingi.

Það var mælt fyrir frumvarpinu, síðan komu inn umsagnir um það og núna er verið að vinna úr þeim umsögnum. Þær voru ekkert á einn veg, þær voru á marga lund og mörg atriði tíunduð, bæði það sem þótti mjög gott, það sem betur mætti fara (Forseti hringir.) og enn fremur það sem menn voru óánægðir með.

Ég kem svo ítarlegar að umfjöllun um það í seinna svari mínu (Forseti hringir.) en þetta er í þessu ferli.