140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

frumvarp um stjórn fiskveiða.

[15:07]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er vissulega áhyggjuefni ef hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ræða ekki neitt saman þegar kemur að því að móta efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Eins og hæstv. efnahagsráðherra benti á í síðustu viku átti að klára þetta mál fyrir áramót. Nú hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra borið það til baka og það er ljótt ef samráðsleysið er með þeim hætti innan ríkisstjórnarinnar.

Ég spurði hæstv. ráðherra nokkurra spurninga og fékk því miður fá svör. Ég spyr: Á að leggja fram frumvarpið á grundvelli sáttaleiðarinnar eða á grundvelli þess frumvarps sem var lagt fram í sumar og næstum allir voru ósáttir við? Það er ósköp eðlilegt að hagvaxtarspár séu með þeim hætti sem raun ber vitni. Við gætum aukið fjárfestingu í þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Við gætum verið að auka verðmætasköpun, við gætum verið að fjölga störfum en meðan ríkisstjórnin viðhefur þetta ráðslag (Forseti hringir.) heldur það atvinnugreininni í heljargreipum. Við það getum við ekki búið.