140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

frumvarp um stjórn fiskveiða.

[15:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég frábið mér svona svartsýnistal um sjávarútveginn. Ef það hefur í raun gengið vel í einhverri grein, bæði á yfirstandandi ári og því síðasta, er það einmitt í sjávarútveginum. Ég hygg að við séum (Gripið fram í.) núna býsna þakklát fyrir að eiga svo öflugan sjávarútveg sem raun ber vitni.

Hins vegar er unnið að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og þær taka sinn tíma. Ef vel gengur getur svo sem málið klárast fyrir jól og ég mun mæla fyrir því fyrir jól, það er að minnsta kosti vilji minn. En það þarf að vanda til þessarar vinnu og það er verið að vinna úr þeim umsögnum sem voru sendar. Þetta tekur sinn tíma.

Ég minni á að þegar á þessu ári (Forseti hringir.) hafa komist í gegn breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem skipta miklu máli (Forseti hringir.) fyrir afkomuna og veiðina í sumar.