140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

kaup ríkisins á jörðum á Reykjanesi.

[15:10]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Í fjáraukalagafrumvarpinu eru upplýsingar um viðskipti aldarinnar að margra mati, kaup ríkisins á jarðhitaauðlindum á Reykjanesi, þ.e. á Kalmanstjörn og Junkaragerði. Þegar maður fer að rýna í töluna þar staldrar maður aðeins við og spyr sig um aðferðafræðina og hvaða fordæmi megi draga af þessum gjörningi um frekari viðskipti ríkisins við eigendur þeirra auðlinda sem um ræðir.

Þegar þetta er skoðað örlítið nánar sjáum við að Reykjanesbær kaupir af HS Orku á árinu 2009 jarðhitaréttindi og land á Reykjanestá sem er 39 hektarar og í Svartsengi 63 hektara á 854 millj. kr. Árið 2010 kaupir Reykjanesbær Svartsengishlutann, 63 hektara, af Reykjanesbæ á 447 millj. kr. sem þýðir að Reykjanesbær keypti 39 hektarana á Reykjanestá af HS Orku á 407 millj kr.

Nú liggur fyrir að ríkið er að kaupa þennan sama hlut á 1.230 millj. kr., þ.e. verðmatið er rúmum 800 millj. kr. hærra. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvaða aðferðafræði hafi verið notuð við þessi kaup til að verðleggja þennan hlut og einnig og ekki síður hvort þess megi vænta að sú verðlagning sem hér um ræðir verði grunnur að viðskiptum sem fram undan eru á þessu sviði í íslensku þjóðlífi.