140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

kaup ríkisins á jörðum á Reykjanesi.

[15:14]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég þakka svörin. Engu að síður er ég örlítið undrandi á þeirri forgangsröðun sem hér liggur fyrir, þ.e. að á sama tíma og við erum að berjast við það að loka fjárlagagati og skera meðal annars niður í heilbrigðisþjónustu séum við hér að eyða, samkvæmt þessu, þeim fjárhæðum sem um ræðir og bæta 800 milljónum ofan á kaupverð þegar það liggur fyrir að þetta land var í opinberri eigu, þ.e. í eigu sveitarfélagsins. Það hefur komið fram, m.a. frá talsmanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við fjárlagagerð og í fjölmiðlum, að með þessum kaupum sé ríkisvaldið komið bakdyramegin inn í þau átök sem hafa á Suðurnesjum verið tengd Magma-málinu. Ég vil gjarnan inna hæstv. ráðherra eftir nánari skýringum á orðum hv. þm. Björns Vals Gíslasonar sem komið hafa fram í fjölmiðlum og spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé sammála þessu. Getur hann þá gert þinginu örlitla grein (Forseti hringir.) fyrir því undir hvaða skilmálum hægt er að hafa þennan skilning á málinu?