140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

kaup ríkisins á jörðum á Reykjanesi.

[15:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég árétta bara að í tilviki ríkisins er það að sjálfsögðu kostur við samningagerðina að ríkið fær þarna staðgreiðslu á tæplega 900 millj. kr. skattskuld sem ella hefði væntanlega innheimst á löngum tíma á grundvelli skuldabréfs sem Alþingi var búið að heimila ríkinu að gera til að ljúka uppgjöri á sambærilegum skattskuldum hjá tveimur sveitarfélögum sem voru ekki í færum til að greiða sínar áföllnu skattskuldbindingar samtímis. Alþingi féllst góðfúslega á það að heimila að með lögum mætti semja sérstaklega um uppgjör á þeirri skuld sem auðvitað er stuðningur við þau sveitarfélög sem í hlut eiga og eru í fjárhagserfiðleikum varðandi skammtímagreiðslur af þessari stærðargráðu.

Ég vona að það hafi góð áhrif í sjálfu sér og skapi meiri ró um þessi mál að öll auðlindin úti á Reykjanesskaganum sé þá komin í sameign ríkisins í staðinn fyrir (Forseti hringir.) aðeins hluta hennar. Í sjálfu sér hefur þetta ekki að öðru leyti nein áhrif á þegar gildandi samninga eða önnur slík mál sem þarna eiga í hlut.