140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

ríkisábyrgðir á bankainnstæðum.

[15:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta var alveg dæmalaust svar. Ekki er enn þá lagastoð fyrir því að ríkið tryggi innstæður, það er rétt, en hér féllu bankarnir 2008 þannig að ríkisstjórninni hefði verið í lófa lagið að setja slíkt ákvæði inn í almenn lög ef svo bæri undir eða fjáraukalög.

Hæstv. fjármálaráðherra segir að Fjármálaeftirlitið taki ákvarðanir í málum eins og ég er að fara yfir. Hæstv. fjármálaráðherra fer hér með ábyrgðina og það er fjármálaráðuneytið undir hans stjórn sem dælir út ríkisábyrgðum í ljósi ákvarðana frá Fjármálaeftirlitinu. Þetta er mjög einfalt, enda ætti ráðherrann að gera sér grein fyrir því að fyrir rest er það ráðherraábyrgðin sem skiptir máli. Hér er verið að setja eyðuákvæði í fjáraukalögin, opna heimild fyrir fjármálaráðherra til að leika sér með það hvaða upphæð fer inn fyrir rest þegar samningar hafa tekist á milli Landsbankans og ríkissjóðs. (Forseti hringir.) Ég gagnrýni þessi vinnubrögð og vísa í lög um ráðherraábyrgð.