140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:40]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við erum að fara að greiða atkvæði um fjáraukalög. Þar á meðal eru breytingartillögur við 3. gr., um endurlán, og 4. gr., um heimildir. Þær snúa að svokölluðum Vaðlaheiðargöngum sem mikið hafa verið í umræðunni. Ég leyfi mér að benda á að það er verið að taka afstöðu til mála sem algerlega eru byggð á ófullnægjandi gögnum. Gögnin sem Alþingi hefur undir höndum, bæði umhverfis- og samgöngunefnd og fjárlaganefnd, eru forsendur Vaðlaheiðarganga hf. og þar er ekki einu einasta orði minnst á tekjuáætlun framkvæmdarinnar. Það er ekki stafur á blaði og engu að síður á að fara af stað og veita þessar heimildir til fjármálaráðuneytisins. Samkvæmt dagskrá þingsins á 3. umr. og lokaatkvæðagreiðsla um fjáraukalagafrumvarpið að vera á miðvikudaginn, þ.e. ekki á morgun heldur hinn — áður en úttekt Ríkisendurskoðunar á þessum forsendum liggur fyrir. Ég hreinlega trúi því ekki að þingið ætli að afgreiða málið frá sér með þessum hætti. Þetta er óboðleg meðferð á fjármunum skattgreiðenda. Við munum því greiða atkvæði gegn þessum (Forseti hringir.) liðum vegna þess að við treystum því ekki að fjárlaganefnd nái að stöðva málið á þessum tíma.