140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það dugði ekki Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að eignarhald auðlindarinnar á Reykjanesi væri í höndum opinbera aðilans Reykjanesbæjar heldur var það gefið út að opinberi aðilinn þyrfti að vera ríkið. Þess vegna var hæstv. fjármálaráðherra, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, tilbúinn að greiða, eftir því sem kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma áðan, ríflega hátt verð fyrir þessa auðlind.

Ég svaf vel á nóttinni meðan ég vissi að auðlindin væri í eigu Reykjanesbæjar. Sem íbúi í Reykjanesbæ verð ég að styðja við þessi kaup vegna þess að það er alveg greinilegt að hæstv. fjármálaráðherra hefur slæma samvisku gagnvart (Forseti hringir.) þessu ágæta sveitarfélagi og er tilbúinn að bæta fyrir ýmis brot með því að reiða fram háar fjárhæðir þarna. Ég fagna því.