140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:56]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við greiðum atkvæði um breytingartillögu meiri hluta fjárlaganefndar við 3. gr. frumvarpsins sem felur í sér lánveitingu til Vaðlaheiðarganga hf. til fjármögnunar gangaframkvæmda. Um leið og ég fagna því að verið sé að hefja framkvæmdir við uppbyggingu innviða eins og kallað hefur verið eftir, m.a. af aðilum vinnumarkaðarins, ítreka ég að forsenda Alþingis fyrir ákvörðun um að ráðist verði í samgönguframkvæmdir á borð við þessa hefur verið að framkvæmdin standi undir sér að öllu leyti. Sú forsenda er óbreytt.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að áður en stofnað er til skuldbindinga ríkisins komi málið aftur til fjárlaganefndar og verði kynnt henni með fullnægjandi hætti.

Frú forseti. Ég segi já.