140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[15:57]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti Í áliti meiri hluta fjárlaganefndar kemur fram eftirfarandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að áður en stofnað er til skuldbindinga ríkisins komi málið aftur til fjárlaganefndar og verði kynnt henni með fullnægjandi hætti.“

Eins og fram hefur komið stendur til samkvæmt dagskrá þingsins að afgreiða fjáraukalagafrumvarpið á miðvikudaginn. Ef það fer þannig að það er búið að samþykkja fjáraukann hefur þessi fyrirvari sem hér er settur fram í nefndarálitinu ekkert gildi. (Gripið fram í.) Þá gilda lögin sem sett hafa verið þannig að þá er augljóst að bara morgundeginum er til að dreifa fyrir fjárlaganefnd til að kalla eftir þessum rökstuðningi, hann liggi fyrir og fjárlaganefnd hafi lagt blessun sína þar yfir. Að öðrum kosti hefur þessi fyrirvari fjárlaganefndar ekkert gildi.

Ég tek reyndar undir að það er ágætt að verið er að fara í framkvæmdir, við höfum kallað mjög svo eftir því. Það skiptir samt máli að leggja hlutina fram með (Forseti hringir.) fullnægjandi hætti á þinginu þannig að það geti tekið afstöðu byggða á gögnum, rökum og skynsemi.