140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:12]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er fullyrt í ræðu að um 15–20 milljarðar muni falla á íslenska skattgreiðendur. Ég hef aldrei heyrt þetta áður, göngin kosta eitthvað um 9 milljarða og verða greidd af þeim sem aka í gegnum þau. Það hefur alltaf legið fyrir. Þeir sem greiða útsvar í Þingeyjarsýslum eru reiðubúnir að leggja á sig aukið útsvar og sveitarfélögin þar eru til í að leggja hlutafé í framkvæmdir.

Hér var sagt áðan og fullyrt að göngin væru dimm. Ég get sagt með fullri vissu að þau verða björt, um þau munu leika ferskir vindar. Eyfirðingum veitir svo sem ekkert af að fá smávegis af því lofti sem er til staðar í Þingeyjarsýslum. Ég held að þingmenn Reykvíkinga, sem hafa nokkrir komið upp, ættu frekar að leggjast á árar með okkur sem viljum brúa þá gjá sem hefur myndast milli landsbyggðar og (Forseti hringir.) höfuðborgarsvæðisins í staðinn fyrir að breikka hana.