140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem fram kom í máli mínu fyrr í dag. Ég tel að hæstv. fjármálaráðherra vanti valdheimildir til að geta farið fram með þetta ákvæði eins og það stendur hér. Fram kemur í áliti sem Ríkisendurskoðun skilaði til fjárlaganefndar að það væri á mörkunum að þetta væri löglegt vegna þess að fjárheimild vegna þessa gjörnings væri ekki á fjárlögum ársins 2011 en hún er nú komin inn í fjáraukalög.

Ég vara við því að ákvæðið fari svona inn, sérstaklega í ljósi þess að Ríkisendurskoðun mun brátt skila skýrslu til Alþingis. Alþingi hefur eftirlit með framkvæmdarvaldinu og Ríkisendurskoðun hjálpar Alþingi við það með skýrslugerð. Svo segir mér hugur um að flýtirinn á þessu máli verði slíkur að hæstv. fjármálaráðherra gefi sér ekki tíma til að bíða eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þess vegna er hann að sækja sér heimildir til þingsins (Forseti hringir.) til að geta gert þetta með þeim hætti. Ég lýsi ábyrgðinni á ríkisstjórnina.