140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Verið er að greiða atkvæði um framlög til erlendra sjóða. Fyrri greinin, 7.20, er til Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu, EBRD, og í heimild 7.21 er til Þróunarbanka Evrópuráðsins, CEB.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að þetta séu ekki bein útgjöld en það verði fjármagnað með aukningu á stofnfjárloforðum og hluti af því í formi innborgaðs stofnfjár úr varasjóði bankans. Að mínu mati er verið að fela ríkisútgjöld vegna þess að þarna er gengið á hlut okkar í þessum sjóðum og það kemur örugglega til greiðslu síðar. Úr því að þetta er haft í evrum langar mig til að upplýsa þingheim um að fyrri skuldbindingin er um 1,5 milljarðar og seinni skuldbindingin um 800 millj. kr. Hér er um mikla peninga að ræða, sérstaklega í ljósi þess að féð er innt af hendi í dýrmætum gjaldeyri.