140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[16:25]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Þessar tvær greinar fjalla um að við samþykkjum að fært verði fé úr stofnfjársjóði, annars vegar EBRD og hins vegar CEB, yfir í nýtt stofnfé. Það verður væntanlega gert ef allir samþykkja það í öllum aðildarríkjunum þannig að við höldum hlutdeild okkar sem eigendur sjóðanna tveggja. Þetta eru í kringum 2,3 milljarðar og ég hefði, í ljósi þess hvernig ástandið er á Íslandi og sérstaklega vegna þess hvernig EBRD hefur komið fram við okkur Íslendinga, sagt að við viljum fá arðinn hingað heim aftur. Við getum notað hann til dæmis til að fjármagna heilbrigðiskerfið.