140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

afgreiðsla fjáraukalaga.

[16:30]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa undrun minni á þeirri umræðu sem hér fer fram.

Fjáraukalagafrumvarpið var tekið til ítarlegrar umfjöllunar í fjárlaganefnd. Þar var gerð tillaga um málsmeðferð og tímasetningar á því hvenær fjárlaganefnd taldi sig tilbúna til að afgreiða málið og koma því inn á þing. Ekki voru gerðar athugasemdir við þær tillögur og var einróma samþykki í fjárlaganefnd að vinna þetta með þeim hætti sem hér hefur verið lagt til, og algjörlega athugasemdalaust.

Ég verð því að lýsa undrun minni á því að þingmenn, ekki síst þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir, skuli stinga upp á því að við breytum út frá þessum dagskrárlið hér.

Þetta hefur sömuleiðis verið rætt í hópi þingflokksformanna. Ég man ekki til þess að gerðar hafi verið athugasemdir við þá dagskrá sem legið hefur fyrir þinginu hvað þetta varðar. Ég hvet því forseta til þess að halda dagskránni eins og fyrir hefur verið lagt og við ljúkum þessu máli núna í vikunni.