140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

afgreiðsla fjáraukalaga.

[16:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil ítreka þá beiðni mína sem ég lagði fyrir í máli mínu áðan að þingflokksformenn verði kallaðir saman og fyrri ákvörðun, þ.e. að setja fjáraukalagafrumvarpið til 3. og síðustu umr. og atkvæðagreiðslu á miðvikudaginn, verði endurskoðuð. Þrátt fyrir orð hv. þm. Björns Vals Gíslasonar hefur það komið fram að athugasemdir hafa verið gerðar ítrekað í fjárlaganefnd um einstök atriði og mælst til þess að ákveðin gögn og ákveðið verklag yrði viðhaft til að ljúka megi umræðum og afgreiðslu málsins á þeim tíma sem nefnt var.

Á bls. 2 í meirihlutaáliti fjárlaganefndar er sá fyrirvari varðandi t.d. Vaðlaheiðargöngin, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að áður en stofnað er til skuldbindinga ríkisins komi málið aftur til fjárlaganefndar og verði kynnt henni með fullnægjandi hætti.“

Í dag er mánudagur. Klukkuna vantar 20 mínútur í fimm. Það er þá væntanlega einn dagur sem gefst til þess (Forseti hringir.) að kynna málið fyrir fjárlaganefnd með fullnægjandi hætti.

Frú forseti. Í ljósi þess að virðulegur forseti hefur lagt sig fram um að viðhafa vönduð vinnubrögð og stuðla að auknu og betra verklagi hérna fer ég fram á það í fullri vinsemd að þessi fundur verði haldinn þannig að við getum lagst yfir dagskrá þingsins og breytt henni svo sómi verði að.