140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

afgreiðsla fjáraukalaga.

[16:36]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hann er ótrúlegur og óskiljanlegur þessi pirringur sem kemur hér fram hjá hv. stjórnarandstöðu. Ég held að það sé vegna þess að fjárlaganefnd vann mjög hratt og örugglega að undirbúningi þessarar afgreiðslu á fjáraukalagafrumvarpinu og menn geta ekki, eins og þeir eru vanir hér, kvartað undan því að ekkert sé gert og ekkert skili sér inn í þingsal. Starfsáætlun þingsins var nefnilega breytt vegna þess að fjáraukalagafrumvarpið var það langt komið í vinnslu og það þótti sjálfsagt að klára það.

Ég hvet til þess að hæstv. forseti verði við bón þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins og fundi með þingflokksformönnum til að fara yfir það hvað mönnum finnst út af standa í þeirra huga.

Maður er svolítið hissa á því — það er eins og aldrei hafi verið samþykktar skilyrtar heimildir, skilyrt heimildarákvæði í fjáraukalagafrumvarpi fyrr. Ég verð að segja vegna orða síðasta hv. þingmanns að það gengur ekki að (Forseti hringir.) gera því skóna að þingmenn viti ekki hvað þeir eru að gera þegar þeir eru að samþykkja hér mál, það er bara einfaldlega ekki hægt að sitja undir slíku.