140. löggjafarþing — 21. fundur,  14. nóv. 2011.

afgreiðsla fjáraukalaga.

[16:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegur forseti. Það virðist vera að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir ætli ekki að sitja hérna undir orðum mínum, en ég beini þeim að sjálfsögðu fyrst og fremst til forseta.

Ég tel að það hafi komið algjörlega skýrt fram í atkvæðaskýringum að þingmenn eru einmitt að taka ákvörðunina hér á grundvelli ónógra upplýsinga. Það er svo að þingmenn vita ekki, t.d. í tilfelli sölu á eignarhlut ríkisins, hverjir kaupendurnir eru. Við vitum ekki hvert kaupverðið er og við vitum ekki hver áformin eru. Það gæti kannski hugsast að hæstv. fjármálaráðherra ætli núna að upplýsa hverjir það eru sem eiga Íslandsbanka, því að ekki veit ég það, það væri mjög áhugavert að heyra það.

Ég vil líka taka undir orð starfandi þingflokksformanns framsóknarmanna um mikilvægi þess að við séum búin að fá þau gögn sem ríkisendurskoðandi er að taka saman um útistandandi ríkisábyrgðir, vegna þess að það er alveg ótækt hvernig vinnubrögðunum hefur verið háttað (Forseti hringir.) varðandi þessar ríkisábyrgðir. Það virðist vera að fjármálaráðherra hafi haft hér opna heimild til þess að (Forseti hringir.) skera úr um þetta til hægri og vinstri á íslenska ríkið.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á að ræðutíminn er ein mínúta.)