140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

opinber þjónusta í Þingeyjarsýslum.

148. mál
[16:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt sem hv. málshefjandi segir að þessi viljayfirlýsing var undirrituð milli ríkisstjórnarinnar — iðnaðarráðherra gerði það fyrir hennar hönd — og fjögurra sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum. Þar segir að aðilar séu sammála um mikilvægi þess að staðinn verði vörður um opinbera þjónustu á svæðinu sem nauðsynleg er þegar til uppbyggingar kemur. Síðar í sömu yfirlýsingu er rætt um að fara í greiningarvinnu á innviðum og þjónustu, hvað þurfi að koma til, og að þeirri vinnu verði lokið þegar að því kemur að framkvæmdir hefjist eða ákvarðanir hafa verið teknar um slíkt. Unnið hefur verið eftir þessu síðan og greiningarvinna af þessu tagi, það ég best veit, hefur verið í höndum verkefnisstjórnar.

Þessi yfirlýsing þýðir að sjálfsögðu ekki að allt verði óbreytt. Hún þýðir ekki að það sem verið er að vinna að í ríkisfjármálum almennt í landinu eigi þá ekki við um Þingeyjarsýslur. Það er ekki svo. Meðal annars í ljósi reynslunnar að austan fagnar maður því að menn vilji nálgast þetta á þann veg að greina það fyrir fram hvaða álag verður á einstakar stofnanir og þjónustuaðila á svæðum þar sem miklar framkvæmdir fara í gang. Það er verið að gera það. Reyndar hefur verið staðinn vörður um þjónustu á þessu svæði sem hefur staðið höllum fæti og gerðar hafa verið sérstakar ráðstafanir í þeim efnum. Þar má nefna í fyrsta lagi að Framhaldsskólinn á Húsavík, sem hefur búið við nemendafækkun, fékk sérstaka aðstoð á síðasta ári eða fram að öndverðu þessu ári, þ.e. sett var gólf í fjölda nemendaígilda til að verja skólann fyrir frekari fækkun sem leiðir til þess að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012 fær hann um 10 milljónum meiri fjárveitingar en á árinu 2011. Framhaldsskólinn á Laugum fær reyndar enn meiri aukningu, enda aðsókn að þeim skóla góð.

Í öðru lagi má nefna að nú hefur verið auglýst embætti sýslumanns á Húsavík til frambúðar þannig að í því eru fólgnar ákveðnar vísbendingar um að höfuðstöðvar sýslumannsembættis verði á þessu svæði verði af fyrirhugaðri stækkun sýslumannsumdæma.

Í þriðja lagi var farið í sérstakar ráðstafanir til að styrkja rekstur hjúkrunarheimilisins Hvamms með því að bæta þar við 10 hjúkrunarrýmum og hjálpa heimilinu að ráða við skuldavanda frá fyrri árum.

Það er vissulega rétt að samdráttur í rekstri heilbrigðisstofnunar Þingeyinga hefur verið erfiður. Það er í sérstakri skoðun, eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður viti, og málið á forræði fjárlaganefndar hvað varðar útfærslu aðhaldsaðgerðanna á árinu 2012.

Rætt hefur verið um fækkun starfa í þessum efnum og hvort svæði eins og Þingeyjarsýslur eða Norðausturland fari verr út úr því en aðrir landshlutar. Ég lét taka saman gögn úr launabókhaldi ríkisins til að reyna að átta mig á heildarfjölda þeirra sem fá greitt þaðan fyrir dagvinnu, í hlutastarfi eða í fullu starfi, og skoðaði þar aprílmánuð 2008 og aprílmánuð núna 2011. Þar kemur vissulega í ljós að orðið hefur nokkur fækkun eins og við mátti búast. Í apríl 2008 voru 244 í launabókhaldi ríkisins sem fengu greitt fyrir dagvinnu hjá opinberum stofnunum í Þingeyjarsýslu eða á Norðausturlandi, það er ekki alveg tæmandi — hér erum við að tala um ÁTVR, Framhaldsskólann á Húsavík og Laugum, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Landgræðslu ríkisins, Náttúruverndarstöðina við Mývatn, rekstur Vegagerðarinnar og sýslumannsembættið á Húsavík — en 225 í apríl á þessu ári, eða 7,8% færri sem eru á daglaunagreiðsluskrá í ríkisbókhaldinu.

Ef við tökum þetta og berum það saman við heildarfjölda sambærilegra hópa í launabókhaldi ríkisins, voru það 21.997 sem með sambærilegum hætti fengu greidd dagvinnulaun að einhverju leyti í apríl 2008, en eru 19.446 í apríl í ár, eða 11,6% færri. Miðað við vísbendingar úr launabókhaldi ríkisins hefur opinberum störfum fækkað minna á Norðausturlandi en að landsmeðaltali svo að nemur marktækum mun.

Ég held því að ekki sé hægt að færa fyrir því rök að að þessu leyti hafi þetta svæði eða þess vegna landsbyggðin öll, sem mig grunar að svipað gegni um, farið verr út úr óumflýjanlegum sparnaðaraðgerðum ríkisins en landið almennt, enda liggur nokkuð í hlutarins eðli að hér á suðvesturhorninu og einkum í höfuðborginni sjálfri eru stærstu (Forseti hringir.) vinnustaðirnir sem orðið hafa að taka á sig umtalsverðan sparnað (Forseti hringir.) sem að einhverju leyti hefur átt sér stað í fækkun starfsmanna.