140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

opinber þjónusta í Þingeyjarsýslum.

148. mál
[16:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Mér finnst hv. stjórnarliðar, þá á ég við hæstv. ráðherrann og hv. þm. Jónínu Rós Guðmundsdóttur, vera með orðhengilshátt í þessari umræðu. Það er verið að reyna að túlka þessa viljayfirlýsingu á þann veg að það megi skera niður hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga um þessi 9% — að menn hefðu bara alveg eins getað átt von á því. Ég get sagt það eftir að hafa átt fund með fulltrúum allra þessara sveitarfélaga ásamt hv. þingmanni og hæstv. ráðherra stóð enginn þeirra viðmælenda í þeirri trú að leggja ætti niður sjúkrahúsið á Húsavík, að það kæmi fram 9% niðurskurður gagnvart þeirri stofnun, sem mundi þá á þriggja ára tímabili jafngilda því að niðurskurðurinn væri 33%. Hv. stjórnarliðar geta komið hér upp og reynt að lesa eitthvað á milli línanna að þetta hafi nú verið andinn. En staðreyndin er sú að viðsemjendur þeirra, forustumenn sveitarfélaganna í sýslunni, eru algjörlega á öndverðum meiði við þau þegar kemur að túlkunum á þessari viljayfirlýsingu.

Ég hvet hæstv. ráðherra og hv. stjórnarliða til að standa við þá viljayfirlýsingu sem ritað var undir fyrir tæpu hálfu ári, því að við erum að tala um grundvallarþjónustu.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra valdi sér ákveðnar tölur þegar hann fór yfir þróun opinberra starfa. Eigum við að fara yfir byggðaþróunina á þessu svæði á undangengnum árum? Þetta svæði, Þingeyjarsýslur, hefur farið einna verst hvað varðar fólksfjölda út úr þeirri þróun á undangengnum árum. Ég held að það hafi verið nægjanlegt líka að taka þær tölur inn í þessa umræðu. Það er því mikilvægt að standa vörð um grundvallarþjónustu á þessu svæði.

Ég vek líka athygli á sérstöðu svæðisins, það er gríðarlega víðfeðmt. Það eru sex heilsugæslustöðvar á þessu svæði, enda er það gríðarlega mikið að umfangi eins og ég veit að hæstv. ráðherra þekkir. Ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér með okkur hinum í því (Forseti hringir.) að af þessari viljayfirlýsingu verði og menn gangi ekki gegn henni (Forseti hringir.) þvert á skilning heimamanna.