140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

opinber þjónusta í Þingeyjarsýslum.

148. mál
[17:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það á ekkert að þurfa að túlka þetta út og suður. Það stendur þarna einfaldlega að það eigi að fara yfir og greina hvað sé nauðsynleg þjónusta til þess að svæðið sé undir það búið að taka við auknum umsvifum og auknum framkvæmdum. Það þýðir ekki að allt sé óbreytt. Það getur þýtt jafnvel að það þurfi á einhverjum sviðum að bæta í þjónustuna til að hún sé betur undirbúin, ég nefndi reynsluna að austan. Ég var þar fyrst og fremst að tala um það sem snýr að því hvað mætir opinberum þjónustuaðilum, löggæslu, heilsugæslu o.s.frv. ef umsvif stóraukast á svæði, ég tala nú ekki um eins og þar var þegar þúsundir erlendra verkamanna bættust við inn á svæðið. Í Þingeyjarsýslum verður þetta væntanlega eitthvað í minni skömmtum og vonandi uppbyggingarstig sem er viðráðanlegra fyrir samfélagið og heimaaðilar geta verið meiri þátttakendur í. Mér finnst ekki mega gleyma þeim aðalþætti málsins.

Það er hárrétt — þetta svæði stendur að mörgu leyti höllum fæti. Þar hefur verið mikil fólksfækkun. Ekki var það nú síst á árunum eftir aldamótin og meðan þenslan var sem mest í öðrum landshlutum sem seig á ógæfuhliðina í Þingeyjarsýslum, ættu menn að hafa í huga. Þar af leiðandi hefur aldurssamsetning líka þróast með óhagstæðum hætti. Meðalaldur er hár. Þannig að það er fullkomin ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af þessu svæði og mikilvægt að styrkja það með því að koma framkvæmdum og umsvifum í gang. Að því er unnið hörðum höndum. Þetta svæði er í algerum forgangi hvað það varðar, t.d. hjá Landsvirkjun, að þarna verði næst borið niður með nýjar virkjanir og reynt að landa samningum við aðila um kaup á orku.

Sama gildir um samgöngubætur af því Vaðlaheiðargöng voru nú hér á dagskrá á næsta fundi á undan. Þá er óhætt að nefna það að sennilega yrði fátt betra fyrir þetta svæði og allt Norður- og Norðausturlandið en að fá þá miklu samgöngubót þannig að innviðir svæðanna styrktust í heild.

Unnið er samkvæmt þessu í samstarfi við heimamenn að (Forseti hringir.) greina þessa nauðsynlegu þjónustuþörf. Ég nefndi hér ráðstafanir sem þegar hefur verið gripið til til þess að standa vörð um þá þjónustu sem talin er mikilvæg á svæðinu eins og sýslumannsembætti, framhaldsskóla, (Forseti hringir.) hjúkrunarheimili og fleira.